Hugmyndum viðhaldið sem vel hafa reynst

Heimir Guðjónsson hefur verið afskaplega sigursæll hjá FH.
Heimir Guðjónsson hefur verið afskaplega sigursæll hjá FH. mbl.is/Eggert

Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara FH, vinnur nú að því að búa lið sitt undir sitt tíunda keppnistímabil sem þjálfari. Seint verður sagt að atvinnuöryggið sé mikið í fótboltanum, hvort sem það er hér á Íslandi eða annars staðar, og valdatími Heimis er því orðinn óvenju langur. Enda hefur árangurinn verið stórglæsilegur eins og íþróttaáhugamenn þekkja. Morgunblaðið settist niður með Heimi á skrifstofu hans í Kaplakrika og reyndi að fá innsýn í þankagang þessa sigursæla þjálfara sem ekki hefur lagt í vana sinn að baða sig í sviðsljósinu þegar titlarnir hafa skilað sér í hús á haustin.

Heimir er nýbúinn að fá til sín Ólaf Pál Snorrason sem aðstoðarmann og Guðlaugur Baldursson rær nú á önnur mið. Ólafur verður þriðji aðstoðarþjálfari Heimis hjá FH en Jörundur Áki Sveinsson var í starfinu 2007-2011. Heimir segir erfiðar ákvarðanir vera óumflýjanlegar ef viðhalda á velgengni. Ákvarðanir sem þessar séu erfiðar en leggur áherslu á að þær séu alls ekki persónulegar.

„Við tókum þá ákvörðun í haust að hrista aðeins upp í hlutunum. Þótt vel hafi gengið síðustu ár þá er oft nauðsynlegt að gera breytingar. Við mátum stöðuna þannig á þessum tímapunkti að gera þyrfti breytingar bæði á leikmannahópnum og skipt var um aðstoðarþjálfara. Ef maður ætlar að viðhalda velgengni þá þarf maður annað slagið að hrista upp í hlutunum og taka leiðinlegar ákvarðanir. Við viljum viðhalda okkar velgengni og þetta var ein leið í því,“ segir Heimir og hann segir slíkar breytingar hjálpa til við að halda sér ferskum sem þjálfara sama liðsins.

„Algerlega. Með nýjum mönnum sjá menn oft hlutina öðruvísi. Nýir menn koma með punkta um leikmannahópinn sem maður hafði kannski ekki tekið eftir sjálfur. Þegar nýr maður kemur vilja leikmennirnir einnig sýna sig og sanna fyrir nýjum manni. Allt slíkt hjálpar til.“

Ítarlegt viðtal og umfjöllun um Heimi má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert