Landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson opnaði markareikning sinn á Englandi í fyrradag þegar hann gulltryggði Fulham 2:0 útisigur gegn Ipswich í ensku B-deildinni í knattspyrnu. Ragnar, sem ekki hefur átt fast sæti í Fulham-liðinu síðustu vikurnar, kom inná sem varamaður á 65. mínútu og þrettán mínútum síðar innsiglaði hann sigur sinna manna á Portman Road.
Ragnar, sem að mínu mati var besti leikmaður Íslendinga í úrslitakeppni Evrópumótsins í Frakklandi í sumar, gekk í raðir Fulham í ágústmánuði frá rússneska liðinu Krasnodar og samdi til tveggja ára við Lundúnafélagið, sem er í sjöunda sæti í ensku B-deildinni og er í baráttu um að komast í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.
,,Ég held að boltinn hafi farið af öxlinni af mér og í netið. Ég hljóp bara á boltann og ætlaði mér að koma honum inn og það tókst. Ipswich var búið að liggja svolítið á okkur áður en ég kom inná. Stjórinn (Slavisa Jokanovic) ákvað því að skella mér inn sem þriðja miðverðinum til að reyna að halda fengnum hlut. Það tókst og gott betur og það var ánægjulegt að ná að tryggja sigurinn í höfn,“ sagði Ragnar í samtali við Morgunblaðið.
Lengra viðtal er við Ragnar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.