Geir Þorsteinsson gefur ekki kost á sér til endurkjörs formanns Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér rétt í þessu.
Geir tók við sem framkvæmdastjóri KSÍ árið 1997 og hefur verið formaður síðan 2007. Kosið er um nýjan formann í febrúar, en nú þegar hefur Guðni Bergsson lýst yfir framboði sínu til formanns. Þá liggur Björn Einarsson undir feldi.
Geir sóttist eftir kjöri í stjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, á þingi UEFA í Helsinki í apríl, en í samtali við mbl.is þegar það var ljóst sagði hann að forsenda fyrir því að taka sæti í stjórn FIFA sé að hann haldi áfram sem formaður KSÍ. Nú er ljóst að svo verður ekki.
Yfirlýsingu hans má sjá í heild sinni hér að neðan.
„Snemma á níunda áratugnum fyrir rúmum 30 árum hóf ég afskipti af knattspyrnumálum utan míns félags þegar ég tók að mér niðurröðun knattspyrnuleikja í Reykjavík, sat síðan í stjórn KSÍ 1986-87 undir forystu Ellerts B. Schram og tók að mér formennsku í mótanefnd KSÍ.
Eitt leiddi af öðru og um áramótin 1992-93 hóf ég störf á skrifstofu KSÍ, en þá hafði Eggert Magnússon tekið við formennsku KSÍ. Ég tók síðan við sem framkvæmdastjóri KSÍ 1997 og hef verið formaður síðan 2007. Um þessi áramót hef ég staðið vaktina fyrir KSÍ samfellt í tæpan aldarfjórðung.
Starfið hefur verið fjölbreytt og skemmtilegt en um leið krefjandi. Góðir stjórnunarhættir kalla á endurnýjun í forystu samtaka eins og KSÍ. Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér til endurkjörs á næsta ársþingi og bið samstarfsfólk í KSÍ, aðildarfélög KSÍ og forystumenn íslenskra knattspyrnufélaga að virða ákvörðun mína og sameinast um að kjósa nýjan formann íslenskri knattspyrnu til heilla. Ég er stoltur af starfi mínu og framlagi til íslenskrar knattspyrnu og hef ávallt haft hagsmuni heildarinnar í huga.
Knattspyrnusamband Íslands stendur nú – utan sem innan vallar – öflugra en nokkru sinni fyrr.
Áfram Ísland, Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.“