Höskuldur Þórhallsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, er að íhuga framboð til formanns Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ. Þetta staðfesti hann við mbl.is nú rétt í þessu.
„Það er rétt að félög utan af landi hafa verið í sambandi við mig og ég get staðfest að ég er að skoða það, já. Það er frekar stuttur aðdragandi að þessu og ég er ekki reiðubúinn að gefa út yfirlýsingu um það hvort ég muni sækjast eftir embættinu. En það hafa nokkrir komið að máli við mig og ég hef verið í sambandi við þó nokkra. Í ljósi þess tel ég rétt að skoða þetta og er að gera það þessa dagana,“ segir Höskuldur við mbl.is.
Hann segir að hjólin hafi farið að snúast eftir að ljóst var að Geir Þorsteinsson, núverandi formaður, ákvað að bjóða sig ekki fram til endurkjörs. Kosið er 11. febrúar, en hvenær ákvörðun hans verður ljós er óvíst.
„Það verður tíminn að leiða í ljós, en ég reikna með að gera það frekar fyrr en seinna. Mér þykir vænt um að menn hafi leitað til mín og það sé áhugi á því að ég taki þetta mikilvæga starf að mér.“
Aðspurður hvað hann myndi setja á oddinn væri hann kosinn formaður segir Höskuldur það fyrst og fremst vera að brúa bil sem hafi myndast á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.
„Ég hef velt fyrir mér pólitíkinni í þessu og ég skil aðkomu landsbyggðarinnar að þessu. Þar eru menn áhyggjufullir yfir stöðunni og ég held að menn sjái tækifæri í því að breyta aðeins til og hafa formann sem kemur af landsbyggðinni. Það hefur myndast viss gjá á milli liða á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Það þarf að minnka þá gjá og ná betra samtali þar á milli að mínu mati,“ segir Höskuldur.
Höskuldur lék á sínum tíma með KA og Fram, auk þess sem hann var þjálfari meistaraflokks Gróttu um tíma og þá hefur hann verið lengi viðloðandi þjálfun yngri flokka.
„Þetta var minn vettvangur meira og minna hér áður fyrr áður en ég fór inn á Alþingi. Svo hef ég beitt mér mjög fyrir jöfnunarsjóði íþróttafélaganna, að það verði settir auknir fjármunir í hann,“ segir Höskuldur Þórhallsson við mbl.is.
Þegar hafa þeir Guðni Bergsson og Björn Einarsson staðfest framboð sitt til formanns.