„Þetta er bara frábær heiður, ekki bara fyrir Tólfuna heldur alla íslenska stuðningsmenn og Íslendinga,“ segir Styrmir Gíslason, einn af stjórnarmönnum í Tólfunni, í samtali við mbl.is, en hann er staddur í Zürich í Sviss þar sem FIFA heldur sitt árlega uppgjörshóf. Íslenskir stuðningsmenn eru þar tilnefndir sem þeir bestu á árinu 2016.
Sjá frétt mbl.is: Tilnefndir sem aðdáendur ársins af FIFA
Auk íslensku stuðningsmannanna eru tilnefndir stuðningsmenn hollenska liðsins ADO Den Haag, Liverpool og Borussia Dortmund. Styrmir er úti fyrir hönd Tólfunnar ásamt Benjamín Árna Hallbjörnssyni og hafa þeir félagar tekið á móti fjölmörgum heillaóskum.
„Við erum mjög spenntir. Við höfum verið mikið með þeim sem einnig eru tilnefndir og það eru allir á því að það skiptir eiginlega engu máli hver vinnur, þar sem gleðin er nóg að vera meðal efstu þriggja. Við erum búnir að fá rosalega góðar viðtökur frá ótrúlegasta fólki, sem óskar okkur til hamingju með síðasta sumar og það er bara frábært,“ segir Styrmir.
Það er mikið um dýrðir í kringum hófið í kvöld og þegar mbl.is ræddi við hann fyrir skömmu voru þeir félagar staddir á svokölluðum stjörnuleik þar sem gamlar kempur taka sig saman og halda nokkurs konar sýningarleik.
„Þetta er eiginlega bara súrrealískt. Hérna eru Puyol, Maradona, Batistuta og ég gæti talið endalaust upp. Við erum á hótelinu með þeim og við borðuðum saman og drukkum hvítvín í gærkvöldi. Þetta er ekki alveg það sem manni datt í hug þegar Tólfan var stofnuð árið 2007, að við myndum enda hérna,“ segir Styrmir.
„Pyuol klappaði mér á kollinn og svona. Það er alveg súrrealískt fyrir svona fótboltanörd eins og mig að vera hérna. Þetta er eiginlega bara alveg kjánalegt og ég er eins og lítill krakki á jólunum hérna.“
Styrmir segir að það sé ekkert til sparað á vegum FIFA.
„Við komumst ekki út úr flugvélinni einu sinni áður en búið var að sækja okkur á BMW sem er dýrari en íbúðin mín. Við vorum leiddir í flýtimeðferð í gegnum flugvöllinn og þaðan í annan bíl sem flutti okkur á hótelið. Þetta er svo mikill lúxus og greinilegt að einhver peningur er til hjá FIFA,“ segir hann.
Aðspurður hvort þeir félagar séu ekki tilbúnir til þess að taka víkingaklappið fari svo að íslenskir stuðningsmenn beri sigur úr býtum stóð ekki á svari.
„Við gerum eitthvert gott flipp. Þeir sögðu það Hollendingarnir að ef þeir ynnu ætluðu þeir að taka víkingaklappið og rífa okkur upp á svið. Við sjáum hvað setur, þetta er allavega mikil vinátta og ótrúlega gaman. Svo er Eva Longoria að afhenda verðlaunin skilst mér. Að fá koss á kinnina frá Evu ef við vinnum verða kannski bara bestu verðlaunin,“ sagði Styrmir og hló.