„Hvað gerir maður ekki fyrir landsliðið?“

Theódór Elmar Bjarnason í leiknum í dag.
Theódór Elmar Bjarnason í leiknum í dag. AFP

„Það var fínt að láta þá keyra á okkur, bíða eftir mistökum og refsa þeim svo,“ sagði landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason í samtali við mbl.is eftir 2:0 sigur Íslands á Kína fyrr í dag.

Sjá frétt mbl.is: Ísland spil­ar til úr­slita í Kína

„Þetta var smá ströggl í byrjun á meðan við vorum að stilla okkur saman. Við komumst svo smátt og smátt inn í leikinn og mér fannst við vinna verðskuldað þegar uppi er staðið,“ sagði Theódór Elmar, en leikurinn hjá íslenska liðinu batnaði til muna í síðari hálfleik.

„Það var einn og einn jákvæður hlutur í fyrri hálfleik og við unnum út frá þeim. Svo vissum við að við yrðum svolítið brothættir í byrjun, fullt af nýjum mönnum í nýju kerfi og það tæki tíma að láta þetta flæða betur. Það kom í ljós í seinni hálfleik að menn voru með sín hlutverk frekar á hreinu.“

Taka ekki þátt bara til að vera með

Theódór Elmar segir að það hafi verið skemmtilegt andrúmsloft á vellinum og allar aðstæður í Kína séu upp á tíu.

„Það var nóg af fólki og fín stemning. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og gaman hvernig þeir hafa tekið á móti okkur hérna. Aðstæður hafa verið fullkomnar og hótelið glæsilegt, svo það er yfir engu að kvarta hér svo við getum einbeitt okkur að því að vinna þetta mót,“ sagði Theódór Elmar og ljóst er að menn séu ekki þarna til að leika sér.

„Maður tekur ekki þátt bara til þess að vera með, það er alveg ljóst. Það er mikill metnaður í þessu liði og mikið af hæfileikaríkum fótboltamönnum svo við auðvitað gefum okkur alla í leikina.“

Sjá frétt mbl.is: Hefðum getað unnið þetta stærra

Kári Árnason, Aron Sigurðarson, Björn Bergmann Sigurðarson og Óttar Magnús …
Kári Árnason, Aron Sigurðarson, Björn Bergmann Sigurðarson og Óttar Magnús Karlsson fagna marki Arons. AFP

Erfitt að vera fjarri nýfæddum syni

Alls fóru sjö nýliðar með íslenska liðinu í þessa ferð og fjórir fengu að spreyta sig í leiknum í dag. Þá voru margir sem eiga bara örfáa leiki að baki, meðal annars Aron Sigurðarson sem skoraði sitt annað mark í öðrum landsleiknum.

„Það er fullt af ungum leikmönnum sem fengu að spila sinn fyrsta leik, Aron kom inná og skorar gott mark. Margir náðu að sanna sig, Kjartan Henry var frábær eftir að hafa komið inná, hélt boltanum vel og mér fannst bara margir ljósir punktar í dag og margir áttu góðan leik.“

Theódór Elmar og Pattra Sriyanonge, unnusta hans, eignuðust son þann 9. desember og aðspurður segir hann að vissulega sé erfitt að vera fjarri þeim.

„Já, auðvitað saknar maður sonarins og konunnar og hefði viljað vera með þeim. En hvað gerir maður ekki fyrir landsliðið,“ sagði  Theódór Elmar Bjarnason við mbl.is.

Sjá: Vissi stundum ekki hvort þeir væru að styðja Kína eða okkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert