Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lagði Kínverja, 2:0, í fyrsta leiknum á China Cup, alþjóðlegu knattspyrnumóti í Nanning í syðsta hluta Kína. Ísland mætir sigurliðinu úr leik Króatíu og Síle í úrslitaleik mótsins á sunnudag.
Kínverjar höfðu nokkra yfirburði í fyrri hálfleik og voru meira með boltann. Besta færi hálfleiksins fengu þeir þegar Hannes Þór Halldórsson varði vel í markinu. Ísland fékk nokkur hálffæri, en var annars nokkuð á eftir kínverska liðinu fyrir hlé. Staðan markalaus í hálfleik.
Það var hins vegar allt annað að sjá til íslenska liðsins í síðari hálfleik. Á sama tíma fór að draga af kínverska liðinu og strákarnir okkar gengu á lagið. Eftir nokkrar efnilegar sóknir komst íslenska liðið yfir þegar rúmar 25 mínútur voru eftir af leiknum.
Björn Daníel Sverrisson átti þá glæsilegan snúning innan teigs og náði skoti á markið. Það var varið, en beint fyrir fætur Kjartans Henry Finnbogasonar sem hafði komið inná sem varamaður fimm mínútum áður. Hann þakkaði pent fyrir sig og skoraði í autt markið af markteignum. Staðan 1:0 fyrir Ísland.
Kínverjarnir hresstust nokkuð eftir þetta, en náðu þó ekki sömu hæðum og í fyrri hálfleik. Þeir voru meira með boltann en gekk illa að skapa sér færi. Að sama skapi var íslenska liðið hættulegt í skyndisóknum sínum.
Ein slík bar árangur tveimur mínútum fyrir leikslok. Annar varamaður, Aron Sigurðarson, fékk þá boltann við miðjubogann og geystist af stað. Hann komst óáreittur inn í vítateiginn og kláraði færið snyrtilega í hægra hornið þó markvörður Kínverja hefði eflaust getað gert betur.
Leikurinn fjaraði svo út og hrósaði íslenska liðið 2:0 sigri og mun spila til úrslita á mótinu næstkomandi sunnudag. Leikurinn hefst klukkan 7:35 að íslenskum tíma og þar mæta Íslendingar sigurliðinu úr viðureign Króatíu og Síle sem mætast á morgun.
Í leiknum í dag spiluðu þeir Albert Guðmundsson, Böðvar Böðvarsson, Orri Sigurður Ómarsson og Óttar Magnús Karlsson sína fyrstu landsleiki. Þá var Kjartan Henry Finnbogason að skora sitt fyrsta landsliðsmark í fimmta leik sínum og Aron Sigurðarson skoraði sitt annað mark í sínum öðrum landsleik.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.