Undrast vinnubrögð KA: „Kom eins og sleggja“

Þór/KA fagnar marki í sumar.
Þór/KA fagnar marki í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það sem furðar mig er að þetta er orðin frétt á sama tíma og okkur er tilkynnt þetta,“ sagði Árni Óðinsson, formaður Þórs á Akureyri, þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá honum við yfirlýsingu KA um að samningur um samstarf félaganna í kvennaflokki yrði ekki endurnýjaður.

Sjá frétt mbl.is: KA slítur samstarfi við Þór

Þór og KA hafa teflt fram sameiginlegu liði í meistaraflokki og 2. flokki kvenna í knattspyrnu og handknattleik. Þór hefur séð um rekstur knattspyrnunnar en KA handboltans og staðfesti Árni að þá ætti Þór að taka sæti Þórs/KA í efstu deild en KA að byrja á botninum, ef orða má þannig.

„Þetta kom okkur á óvart, ég get alveg sagt það. Ég las ekki í hlutina að þetta myndi gerast. Það var ýmislegt sem þurfti að ræða, en þær viðræður höfðu ekki formlega farið fram. Í mínum huga var ekki ágreiningur uppi um eitt né neitt, einhverjar lagfæringar sem þurfti að gera hér og þar. En þetta kemur bara eins og sleggja,“ sagði Árni.

Hann segir að nú verði að ná áttum, en fyrst og fremst þurfi að hugsa um iðkendurna. Þá undrast hann vinnubrögð KA.

„Það sem okkur er mest umhugað núna eru iðkendurnir, að stelpurnar þurfi að lesa þessa frétt í fjölmiðlum. Þetta er mikið í lausu lofti núna en við munum halda utan um þær og halda áfram þeirri uppbyggingu sem við höfum verið í og gengið virkilega vel. Svo þess vegna kemur þetta sem sleggja, enda hefði verið skemmtilegra að senda út sameiginlega yfirlýsingu um að samstarfinu væri lokið.“

Árni Óðinsson, formaður Þórs.
Árni Óðinsson, formaður Þórs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eins og að segja kærustunni upp en sænga fram á haust

Það sem vakti sérstaka athygli Árna var einnig það sem segir í yfirlýsingunni hjá KA að óbreytt fyrirkomulag verði á hlutunum fram á haust. Hins vegar er enginn samningur í gildi – hann rann út í haust og því gæti KA ekki fullyrt þetta.

„Það er þeirra vilji, en það er spurning um hvort það sé okkar vilji,“ sagði Árni, og orðaði hlutina þannig að það væri eins og að segja upp kærustu sinni núna en sænga hjá henni fram á haustið.

„Það hefur verið talað um þetta sem dæmi um frábært samstarf. Samstarfið hefur hins vegar ekki verið neitt, heldur hljómar samningurinn upp á að Þór reki kvennaknattspyrnuna á Akureyri undir heiti Þórs/KA. Það hefur aldrei komið króna frá KA, enda við aldrei ætlast til þess.“

Þór/KA hefur verið eitt sterkasta lið landsins undanfarin ár.
Þór/KA hefur verið eitt sterkasta lið landsins undanfarin ár. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Undrast að KA noti peninga til eigin uppbyggingar

Og talandi um peningamál. Eins og Morgunblaðið greindi frá fyrir skemmstu var uppi ágreiningur á milli KA og stjórnar Þórs/KA um ráðstöfun á fjármagni frá KSÍ, sem er til komið vegna árangurs Íslands á EM í Frakklandi.

Sjá frétt mbl.is: Ágreiningur á Akureyri í kjölfar fjárúthlutunar

Um er að ræða rétt rúm­lega tvær millj­ón­ir króna sem Þór/​KA tel­ur að KA eigi að láta renna í rekst­ur liðsins. KA var úthlutað rúm­lega 11 milljónum og Þór tæplega 13 milljónum. Í til­kynn­ingu frá KSÍ vegna út­hlut­un­ar­inn­ar kom fram að „Fram­lag til aðild­ar­fé­laga bygg­ist fyrst og fremst á stöðu meist­ara­flokks karla og kvenna í deild­um sl. 3 ár. Samkvæmt útreikningi ætti Þór/KA að fá 4 milljónir, eða tvær frá hvoru félagi.

„Við vildum aldrei blanda þessu tvennu saman, en fyrir hönd kvennafótboltans get ég alveg lýst yfir undrun minni. Ég spurði formann KA sérstaklega um þessa peninga, en hún sagði að það væri vilji knattspyrnudeildar að þeir færu í uppbyggingu á KA-svæðinu og yrðu ekki greiddir út.

Við teljum að kvennaliðið eigi rétt á þessu, enda upphæð sem varð til vegna árangurs kvennaboltans og var skipt á milli móðurfélaganna Þórs og KA. Knattspyrnudeild Þórs er búin að greiða þessa peninga nú þegar inn í kvennareksturinn, enda þurftum við ekki að ræða það innan félagsins. Þess vegna kom það jafnmikið á óvart og þetta í dag að KA hugsar sér ekki að greiða sinn hlut,“ sagði Árni.

Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012.
Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Verða stelpur í 2. flokki KA lokaðar úti?

Handknattleikslið KA/Þórs hefur verið rekið af KA, en Árni segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort Þór tefli fram meistaraflokki kvenna í handknattleik. Það hafi einfaldlega ekki gefist tími til þess að fjalla um það innan félagsins, þar sem honum bárust fréttirnar um leið og þær birtust á heimasíðu KA núna undir kvöld.

Árni segir að í meistaraflokki Þórs/KA í knattspyrnu séu iðkendur skráðir í Þór nokkuð fleiri, en um 50/50 hlutfall í 2. flokki á milli félaganna. Þór ætlar að senda sitt lið til keppni í 2. flokki, en spurning er hvort iðkendafjöldin sé nægur til að mynda keppnishæft lið.

„KA er held ég ekki að skrá 2. flokk til leiks í ár, svo þær stelpur væru lokaðar úti sem mér myndi þykja miður. Ætlum við þá að loka á KA-stelpurnar eða bjóða upp á félagaskipti? Alveg sama hvort iðkandinn sé í KA eða Þór, þá viljum við að þær fái að spila knattspyrnu.

Ég vona að við séum ekki að niðurfella kvennaknattspyrnuna á Akureyri. Við Þórsarar gerum allt til þess að það gerist ekki,“ sagði Árni Óðinsson, formaður Þórs, við mbl.is í kvöld.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mbl.is hefur hvorki náðst í formann KA né formann knattspyrnudeildar KA í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka