Breiðablik hefur samþykkt tilboð frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Norrköping í bakvörðinn unga Alfons Sampsted. Þetta kemur fram á blikar.is, en Alfons hefur þegar skrifað undir samning við Svíana og heldur utan til æfinga með liðinu á sunnudaginn.
Alfons sem er 18 ára gamall hefur staðið sig einstaklega vel með Blikaliðinu undanfarin misseri. Hann spilaði 17 leiki í Pepsí-deildinni í sumar, en árið þar á undan lék hann sem lánsmaður með Þór í 1. deildinni og spilaði þar 9 leiki.
Alfons hefur leikið 25 landsleiki með U-17 og U-19 ára landsliðum Íslands og var nýlega valinn til æfinga með U-21 ára landsliði Íslands.