Víkingur Ólafsvík hefur tryggt sér krafta Gunnlaugs Hlyns Birgissonar en þessi 21 árs gamli miðjumaður kemur til Víkings frá Breiðabliki.
Gunnlaugur var samningsbundinn Breiðabliki út árið 2018 en knattspyrnudeildir félaganna náðu samkomulagi um félagaskipti hans. Gunnlaugur samdi til tveggja ára við Ólsara.
Gunnlaugur er uppalinn Bliki en hann lék sem lánsmaður með Víkingum í 1. deild seinni hluta tímabilsins 2015, og fór með þeim upp í Pepsi-deildina. Árið 2014 hafði hann snúið aftur heim til Breiðabliks eftir að hafa leikið með unglingaliðum Club Brugge í Belgíu.
Gunnlaugur, sem var á láni hjá Fram síðasta sumar og lék 19 leiki með liðinu í 1. deildinni, lék á sínum tíma samtals 21 leik fyrir U17- og U19-landslið Íslands.