Mist sleit krossband: „Ömurlegur tímapunktur“

Mist Edvardsdóttir í leik með Val á síðasta tímabilinu.
Mist Edvardsdóttir í leik með Val á síðasta tímabilinu. mlb.is/Eggert Jóhannesson

Mist Edvardsdóttir, leikmaður Vals í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, varð fyrir áfalli á dögunum er hún sleit krossband á æfingu með liðinu sem gerir það að verkum að hún mun nánast örugglega missa af komandi tímabili í heild sinni. Í samtali við mbl.is segir Mist þetta vera áfall fyrir sig en að hún stefni ótrauð á endurkomu í boltann.

„Við vorum á æfingu á föstudeginum fyrir viku niður í Sporthúsi. Ég var hvorki í stefnubreytingu né í samstuði. Ég bremsa mig af, stíg niður og hnéð gefur sig. Fremra krossbandið slitið,“ sagði Mist við mbl.is í dag. Í ljósi aðdragandans segir Mist að sjúkraþjálfarar telji þessi meiðsli nokkuð óvenjuleg en hún hefur ekki slitið krossband áður.

Var farin að hugsa til næsta leiks

Fyrst um sinn hélt Mist, sem er 26 ára gömul, að þetta væri ekkert alvarlegt. Hún hafi meira að segja stefnt á það að ná næsta leik í Reykjavíkurmótinu. Annað kom hins vegar á daginn er hún fór í læknisskoðun.

Mist Edvardsdóttir í leik með Val á síðasta tímabili.
Mist Edvardsdóttir í leik með Val á síðasta tímabili. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta var náttúrlega ógeðslega vont og ég heyrði smellinn og allt það. En ég var samt svo jákvæð og bjartsýn alla helgina að það væri ekkert að og ég væri bara eitthvað tognuð. Ég var farin að horfa til leiksins á móti KR í Reykjavíkurmótinu á fimmtudeginum eftir,“ sagði Mist og játar að þetta hafi verið nokkurt áfall. 

„Þetta var náttúrlega ömurlegur tímapunktur. Þetta er svo skemmtilegur hópur og ég var búinn að hlakka svo til að spila með liðinu á tímabilinu. Þetta var frekar fúlt já,“ sagði Mist.

Ekki fyrsta áfallið

Þetta er ekki fyrsta áfallið sem Mist lendir í en hún glímdi við krabbamein í eitlum sem hún var laus við í byrjun árs 2015. Hún spilaði tímabilið árið 2015 en fann að hún hafði ekki fullan kraft. Á síðasta tímabili var hún hins vegar lykilmaður í liði Vals sem endaði 3. sæti jafnt Breiðabliki þar sem hún lék 17 af 18 leikjum liðsins í deildinni og skoraði þrjú mörk. 

Mist, í harðri baráttu í sumar.
Mist, í harðri baráttu í sumar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Maður er svo sem orðinn pínu vanur þessu. Þegar maður fær svona fréttir þá getur maður grenjað fyrst en svo þarf maður bara að horfa á þetta öðrum augum og takast á við þetta,“ sagði Mist.

Aðspurð hvort hún haldi ekki ótrauð áfram segir Mist ekkert annað vera í stöðunni. „Jú, jú. Núna setur maður sér bara lítil markmið í endurhæfingunni. Ég held að það væri ekki skynsamlegt að setja pressu á sig að ná einhverjum leikjum í sumar þó að það sé spilað út september,“ sagði Mist sem segir að enn séu þrjár vikur þar til að hún fer í aðgerð.

„Fyrstu dagarnir fara í að hugsa hvað maður sé óheppinn en maður breytir þessu ekki núna. Maður þarf að horfa fram á veginn. Eins og maður þekki þetta ekki,“ sagði Mist og hló.

Fær ráð frá reyndum

Mist segir að í besta falli taki endurhæfingin sex mánuði en átta mánuðir séu líklegri tími. Hún horfir skynsamlega á málið og ætlar sér ekki að flýta sér um of enda stefni hún á að koma með sterkari hné til baka í boltann. Þá þurfi hins vegar að gera hlutina vel í endurhæfingunni. Strax og Mist fékk að vita krossbandið væri slitið hafði hún samband við vinkonu sína Guðnýju Björk Óðinsdóttur, fyrrverandi landsliðskonu í knattspyrnu, sem sleit krossband samtals fjórum sinnum á ferlinum.

„Ég sendi Guðnýju strax skilaboð um að fá einhver ráð. Hún er náttúrlega orðin atvinnumaður í krossbandaslitum. Ég vildi strax heyra í henni hvað væri best að gera og hvað ætti að forðast. Ég held að hún hafi líka alveg rekið sig á að gera hluti sem hún hefði ekki átt að gera. Að setja pressu á sig og pína sig í form þegar hnéð er ekki tilbúið, segir Mist og lagði áherslu að það þurfi auðvitað einnig að hugsa um framtíðina.

Mist á að baki 160 leiki í meistaraflokki hér á landi þar sem hún hefur skorað 25 mörk. Hún á auk þess 13 landsleiki að baki þar sem hún skoraði eitt mark. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert