Geir hafnaði sæti í stjórn FIFA

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, er öruggur með sæti í stjórn FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Hann hefur hins vegar ákveðið að taka ekki sæti í stjórninni og hefur dregið framboð sitt til baka. Þetta staðfesti hann við mbl.is.

Geir var einn fimm einstaklinga sem höfðu lýst yfir framboði til sætis í stjórn FIFA, en Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, á fjóra fulltrúa í stjórninni. Rússinn Vitaly Mutko, sem átti sæti í stjórninni og sóttist eftir endurkjöri, hefur verið meinað að bjóða sig fram til endurkjörs og vegna þess er Geir öruggur með sæti sitt. Annars hefði verið kosið um sætin fjögur í apríl.

„Þó ég sé ekki með beinum hætti útilokaður frá kjörinu þá finnst mér ekki rétt að taka sæti í stjórninni,“ sagði Geir við mbl.is. Ástæðan er sú að lagabreytingatillaga var lögð fram á stjórnarfundi UEFA í síðasta mánuði.

„UEFA lagði til á stjórnarfundi breytingartillögu á lögum að í stjórnarkjöri í framtíðinni gætu aðeins gefið kost á sér formenn, varaformenn og framkvæmdastjórar knattspyrnusambanda. Þetta er ein af umbótartillögum sem hefur verið í vinnslu innan UEFA og nýtur mikinn stuðnings knattspyrnusambanda í Evrópu. Vegna þess fannst mér rétt að draga framboð mitt til baka, þar sem ég er hættur sem formaður,“ sagði Geir.

Geir fór örugglega í gegnum „heiðarleikaprófið“

Rússinn Mutko var sá eini af frambjóðendunum sem þegar situr í stjórn FIFA. Gianni Infantino, forseti FIFA, er sagður hafa varað hann við að svona gæti farið þar sem hann er einnig hátt settur stjórnmálamaður í Rússlandi og gegnir nú stöðu aðstoðarforsætisráðherra.

Mut­ko var formaður rúss­neska knatt­spyrnu­sam­bands­ins árin 2005-2009, og svo aft­ur kjör­inn í sept­em­ber 2015. Hann hef­ur verið í kast­ljós­inu á þessu ári vegna stöðu sinn­ar sem ráðherra íþrótta­mála árin 2008-2016, eft­ir að McLar­en-skýrsla alþjóða lyfja­eft­ir­lits­ins kom út. Þar seg­ir að rúss­nesk stjórn­völd hafi staðið fyr­ir skipu­lagðri, ólög­legri lyfja­neyslu íþrótta­manna.

Vitaly Mutko, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, fær ekki sæti í stjórn FIFA.
Vitaly Mutko, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, fær ekki sæti í stjórn FIFA. AFP

Mut­ko, sem varð aðstoðarfor­sæt­is­ráðherra í haust, þurfti að stand­ast sér­staka „heiðarleikaskoðun“ FIFA eins og aðrir fram­bjóðend­ur og hefur sem fyrr segir fengið rautt ljós um framboð. Geir segir sína ákvörðun ekkert haldast í hendur við það mál.

„Þetta er óháð því máli. Ég vissi allan tímann að það yrði miklar getgátur um það hvort hann kæmist í gegnum heilindaprófið. Það var birt í morgun og ég fór í gegnum það eins og ég reiknaði með, en ég tilkynnti félögum mínum á Norðurlöndunum þessa ákvörðun mína í síðasta mánuði,“ sagði Geir.

Geir vill halda áfram í knattspyrnunni

Auk Geirs er þeir Sándor Csányi frá Ung­verjalandi, Dej­an Sa­vicevic frá Svart­fjalla­landi og Costak­is Kout­so­koumn­is frá Kýp­ur öruggir um sæti í stjórn­inni. Nú þegar Geir og Mutko eru ekki lengur inni í myndinni er því eitt autt sæti eftir til úthlutunar.

„Ég veit ekki hvað gerist, hvort verði aukakosning síðar eða hvað. Ég hef ekki séð viðbrögð UEFA ennþá þar sem tilkynningin frá FIFA kom bara í dag,“ sagði Geir. En hvað tekur þá við hjá honum núna?

„Það er nú það. Ég er í nefnd hjá FIFA og í nefnd hjá UEFA, og ég vonast eftir því að starfa ennþá innan knattspyrnunnar. Það hafa verið einhverjar þreifingar en ekkert sem ég get talað um ennþá,“ sagði Geir við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert