Landsliðsmiðvörðurinn Ragnar Sigurðsson segir færri tækifæri hjá Fulham ekki hafa áhrif á sjálfstraust sitt með landsliðinu.
„Það er alltaf langbest að spila reglulega og vera í þeim takti. Það hefur því væntanlega áhrif á sjálfstraustið hjá öllum sem ekki eru regulega í byrjunarliðinu hjá sínu félagsliði. Þessi staða hefur þó ekki áhrif á sjálfstraust mitt hér. Landsliðið er allt annað lið og hjá íslenska landsliðinu bakka allir hverja aðra upp. Hjá Fulham hefur þessi staða haft smá áhrif á mig,“ sagði Ragnar þegar mbl.is tók hann tali á landsliðsæfingu í Parma á Ítalíu í dag.
Ragnar hefur lengi verið atvinnumaður og hefur yfirleitt verið fastamaður í sínu liði þar til hjá Fulham síðustu mánuðina. „Þegar maður flytur til annars lands þá fylgir því öðruvísi menning og öðruvísi fótbolti. Þetta var það sem ég vildi og tíminn í Englandi hefur verið mjög góður fyrir mig. Auðvitað er leiðinlegt að fá ekki tækifæri til að spila reglulega en það virðist einfaldlega ætla að taka aðeins lengri tíma fyrir mig að aðlagast hjá Fulham heldur en hingað til á ferlinum. Ég hef eitthvað kynnst því á ferlinum að sitja á bekknum en mér hefur þó alltaf tekist að koma mér inn í byrjunarliðið og halda mér þar. Ég hef samt engar áhyggjur af þessu og ég hugsa að allir í landsliðinu hafi einhvern tíma lent í þessu. Maður lærir af þessu og reynir að bæta sig.“
Ísland mætir Kósóvó í undankeppni HM á föstudaginn en Kósóvó er í fyrsta skipti með í undankeppni stórmóts. „Þetta er spennandi verkefni. Við höfum aldrei spilað við þá áður og það er alltaf skrítið að spila við lið í fyrsta skipti. Þetta verður hörkuleikur,“ sagði Ragnar Sigurðsson við mbl.is.