Albert Bunjaki, þjálfari Kósóvó, sagði á blaðamannafundi nú undir kvöld að Ísland væri sigurstranlegra liðið þegar þjóðirnar mætast Shkodër annað kvöld í undankeppni HM 2018. Ekki virtust allir samlandar hans úr fjölmiðlastéttinni sammála því mati.
Bunjaki benti á að Ísland hefði farið í 8-liða úrslit á EM í síðustu undankeppni og að leikmenn liðsins hefðu spilað lengi saman ólíkt hans mönnum. Hans sagði að ekki þyrfti að ræða sérstaklega styrk Íslands en að bæði Hollendingar og Englendingar hefðu fengið að finna fyrir því að styrkur íslenska landsliðsins væri miklu meiri en nöfn félagsliða íslensku leikmannanna gefa til kynna. Árangur íslenska liðsins væri gott fordæmi fyrir smáríki sem vilja ná árangri.
Bunjaki sagði að Kósóvó hefði engu að síður burði til að koma á óvart og möguleiki á sigri sé vissulega til staðar í þessum leik. Hann sagði Íslendinga nýta líkamlega burði sína vel og þess vegna mætti búast við fjörugum leik. Engir íslenskir leikmenn voru nefndir á nafn af þjálfaranum á fundinum heldur talaði hann ávallt um liðið en sagðist þekkja vel landsliðsþjálfarana íslensku. Þeir væru hógværir og miklir fagmenn.
Ef mið er tekið af sumum þeim spurningum sem bornar voru fram þá eru fjölmiðlamennirnir frá Kósóvó nokkuð bjartsýnir og er vel kunnugt um forföllin í íslenska liðinu. Einn þeirra gekk raunar svo langt að lýsa yfir sigri og spurði Bunjaki hvort hann myndi fagna í Kósóvó eða Albaníu annað kvöld! Bunjaki svaraði því til að á þessum tímapunkti gæti hann ekki gert meira en að vonast eftir sigri. Ef svo væri þá myndi hann ekki fagna sérstaklega heldur nota tímann til að hefja undirbúning fyrir næsta leik.