„Gaman er að vera hluti af þessu og ég hlakka mikið til að sjá leikinn á morgun,“ sagði Guðni Bergsson formaður KSÍ meðal annars þegar mbl.is tók hann tali í Shkodër í Albaníu í dag þar sem Ísland mætir Kósóvó annað kvöld í undankeppni HM 2018.
Guðni segist ekki vera farinn að finna fyrir stressi vegna leiksins og segir landsliðið vera í góðum höndum. Hann tekur undir að staða Íslands í riðlinum sé spenanndi en með sigri myndi Ísland komast í 2. sætið í riðlinum.
„Staðan er athyglisverð. Þegar við vinnum á morgun þá setjum við okkur í góða stöðu í riðlinum fyrir mikilvægan leik sem er næst gegn Króatíu heima,“ sagði Guðni meðal annars og glotti.
Guðni er að koma sér fyrir í nýja starfinu í Laugardalnum, en hann var nýlega kjörinn formaður sambandsins, og segir það ganga vel. Guðni segir það hafa komið sér aðeins á óvart hversu viðamikið formannsstarfið er þótt hann hafi gert sér grein fyrir því fyrir fram að starfið væri umfangasmikið.
Viðtalið við Guðna í heild sinni er að finna í meðfylgjandi myndskeiði.