„Þetta var ekki fallegasti leikurinn okkar en ég er stoltur af strákunum að hafa klárað þetta,“ sagði landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson við RÚV strax eftir 2:1-sigur Íslands á Kósóvó í Albaníu í kvöld.
Heimir segir að það hafi ekki komið sér neitt á óvart að lið Kósóvó hafi staðið uppi í hárinu á íslenska liðinu.
„Það vissum við sem höfum fylgst með þessu liði, hversu gott það er, og við vissum að það yrði erfitt að koma hingað. Við vorum á erfiðum útivelli og náðum í þrjú stig og það skiptir máli,“ sagði Heimir, sem segir uppleggið þó ekki hafa tekist sem skildi.
„Við ætluðum að vera framar og pressa á þá, en það tókst ekki þar sem þeir byrjuðu á að pressa á okkur. Planið sem við lögðum upp með gekk ekki. En það eru stigin þrjú sem skipta öllu máli,“ sagði Heimir.
Króatía vann Úkraínu svo Ísland komst upp í annað sæti riðilsins. Króatía er á toppnum og kemur í heimsókn í Laugardalinn í júní.
„Við erum búnir að búa til geggjaðan leik í Laugardalnum 11. júní. Við getum komist upp í efsta sætið og það er það sem við erum að berjast um. Þetta eru ofboðslega mikilvæg stig sem við náðum í hér í Albaníu,“ sagði Heimir Hallgrímsson við RÚV.