Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, sagði á fréttamannafundi í Shkodër í gær að allir leikmenn Íslands væru leikfærir fyrir leikinn gegn Kósóvó í kvöld.
„Eins og allir þjálfarar vil ég geta teflt öllum mínum mönnum fram. Það væri hægt í fullkomnum heimi. Ég vona að forföllin hafi ekki áhrif á okkur og við erum bjartsýnir meðal annars vegna þess að yngri leikmenn hafa komið af krafti inn í hópinn,“ sagði Heimir.
Kósóvó var með fréttamannafund á leikvanginum í gærkvöld og þar sagði Albert Bunjaki, þjálfari liðsins, að Ísland væri að sjálfsögðu sigurstranglegra liðið í leiknum, enda hefði það komist í átta liða úrslit á EM. Íslenska liðið væri góð fyrirmynd fyrir önnur smáríki.
„Við höfum verið nálægt því að ná óvæntum úrslitum, liðið er sífellt að bæta sig og vonandi verður heppnin á okkar bandi. Okkar lið er vaxandi, við getum komið á óvart en verðum að vera raunsæir. Við mætum í þessari keppni liðum sem hafa verið lengi saman,“ sagði Bunjaki á fundinum. Hann er frá Pristina, höfuðborg Kósóvó, en lék og þjálfaði í Svíþjóð um árabil áður en hann tók við landsliði Kósóvó fyrir átta árum, en það lék aðeins óopinbera leiki til ársins 2016.