Hverjir munu fylla skörðin?

Emil Hallfreðsson verður mjög líklega í byrjunarliðinu í kvöld.
Emil Hallfreðsson verður mjög líklega í byrjunarliðinu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leiðangur karlalandsliðsins í knattspyrnu í undankeppni heimsmeistarakeppninnar heldur áfram í kvöld eftir fjögurra mánaða pásu en stefnt er að því að leiðangrinum ljúki í Rússlandi sumarið 2018.

Hættulegur andstæðingur bíður íslenska liðsins þegar Ísland mætir Kósóvó á Loro Borici-leikvanginum í Shkodër í Albaníu.

Um er að ræða fimmta leik Íslands í I-riðli undankeppninnar en Ísland er með 7 stig en Kósóvó með 1. Takist Íslandi að vinna í kvöld þá getur liðið komist í 2. sæti riðilsins en Úkraína á erfiðan leik í Zagreb. Króatía er með 10 stig og Úkraína 8 stig og Tyrkland 5 stig.

Kósóvó teflir fram mörgum flinkum fótboltamönnum en spurningin er hvort liðið hafi samæfinguna og skipulag til að koma liði eins og því íslenska í vandræði. Lið Kósóvó virðist ekki eiga í vandræðum með að skapa sér marktækifæri og Avni Pepa, sem leikið hefur fyrir Kósóvó, sagði í viðtali í Morgunblaðinu í síðustu viku að leikmenn liðsins séu meira sóknar- en varnarþenkjandi.

Kósóvar eru að búa til landslið og byggja upp sitt knattspyrnusamband eftir að hafa lýst yfir sjálfstæði árið 2008. Þeir eru enn að ná í leikmenn til að spila fyrir sig og í öðrum landsliðum er að finna öfluga knattspyrnumenn frá Kósóvó. Til dæmis í landsliði Albaníu sem lék á EM í fyrra og einnig má nefna leikmann eins og Xherdan Shaqiri hjá Sviss.

Hverjir verða í framlínunni?

Ísland varð fyrir fáum skakkaföllum í síðustu keppni þar sem sögulegur árangur náðist. Íslenska liðið er því orðið geysilega samhæft og vel skipulagt. Nú sér hins vegar högg á vatni þegar fimm fastamenn vantar í liðið vegna meiðsla og leikbanns. Birkir Bjarnason og Jóhann Berg Guðmundsson hafa verið á köntunum í liðinu um langa hríð en hvorugur þeirra er með í kvöld.

Líklegt þykir mér að Heimir landsliðsþjálfari horfi til þess að nota reyndan leikmann eins og Emil Hallfreðsson í þeirri stöðu. Emil hefur leikið þessa stöðu með landsliðinu og er auk þess í góðu leikformi í sterkri deild sem sú ítalska er. Ef mið er tekið af forgangsröðun á EM þá er líklegast að Arnór Ingvi Traustason verði einnig í byrjunarliðinu. Hann hefur nýtt tækifærin sín vel með landsliðinu. Rúrik Gíslason er einnig valkostur. Reyndur leikmaður sem er af sömu kynslóð og burðarásar liðsins. Hann hefur oft leikið á kantinum fyrir landsliðið.

Vörn íslenska liðsins er iðulega skipuð sömu fjórum mönnunum. Þeir stóðu sig vel fyrir áramót og eru líklegir til að halda sínum stöðum. Þó er spurning hvort Sverri Ingi Ingason sem spilar nú á Spáni geti komist í byrjunarliðið á kostnað Kára Árnasonar eða Ragnars Sigurðssonar.

Þá er spurning um framherjastöðurnar en Jón Daði Böðvarsson hefur spilað mikið fyrir landsliðið frá því hann fékk tækifærið gegn Tyrklandi haustið 2014. Ef hann byrjar inni á þá væri spurning hver verður frammi með honum. Jón hefur oftast haft Kolbein Sigþórsson eða Alfreð Finnbogason sér við hlið en þeirra nýtur ekki við. Ef Heimir vill leikmann sem líkist Kolbeini að einhverju leyti þá gæti hann notað Björn Bergmann Sigurðarson eins og gegn Finnlandi. En ef hann er að leita að leikmanni sem er líkari Alfreð þá gæti Viðar Örn Kjartansson fengið tækifæri en hann skorar reglulega mörk fyrir sín félagslið.

Flautað verður til leiks klukkan 19.45 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert