Markahæsti leikmaður í sögu áströlsku úrvalsdeildarinnar, 20 leikja maður fyrir norska landsliðið og fjórir fyrrverandi landsliðsmenn Albaníu eru í væntanlegu byrjunarliði Kósóvó sem mætir Íslandi í kvöld.
Liðin mætast kl. 19.45 í undankeppni HM karla í knattspyrnu. Leikið er í Shkodër í Albaníu, þar sem Kósóvó á ekki leikvang sem uppfyllir kröfur keppninnar.
Miðillinn Telegrafi í Kósóvó birti í morgun líklegt byrjunarlið Kósóvó í leiknum í kvöld. Þar er gert ráð fyrir tveimur breytingum frá byrjunarliðinu sem mætti Tyrklandi í síðasta leik, í 2:0-tapi á útivelli.
Markahæsti leikmaður áströlsku úrvalsdeildarinnar í vetur, og sá markahæsti í sögu deildarinnar með 99 mörk, kemur inn í byrjunarliðið. Það er Besart Berisha, framherji Melbourne Victory. Berisha, sem er 31 árs gamall, lék 14 leiki fyrir landslið Albaníu áður en hann hætti að gefa kost á sér í liðið árið 2010.
Telegrafi telur jafnframt að Hekuran Kryeziu, leikmaður Luzern í Sviss, komi inn á miðjuna í stað Enis Alushi, liðsfélaga Hólmars Arnar Eyjólfssonar hjá Maccabi Haifa.
Berisha er einn fjögurra leikmanna í byrjunarliðinu sem hafa leikið landsleiki fyrir Albaníu, en það var ekki fyrr en í fyrra sem Kósóvó fékk fyrst leyfi til að taka þátt í undankeppnum HM og EM. Leyfinu fylgdi undanþága til að leikmenn sem þegar hefðu spilað fyrir önnur landslið mættu spila fyrir Kósóvó. Auk Berisha eru í liðinu markvörðurinn og fyrirliðinn Samir Ujkani, miðvörðurinn Amir Rrahmani, og Milot Rashica, sem er afar leikinn miðju- og kantmaður. Ujkani varði einmitt mark Albaníu gegn Íslandi í undankeppni HM 2014, í 2:1-sigri Íslands.
Valon Berisha gegnir mikilvægu hlutverki á miðjunni hjá Kósóvó, en þar er á ferðinni 24 ára gamall fyrrverandi landsliðsmaður Noregs. Berisha mætti Íslandi einu sinni með norska liðinu, í undankeppni HM 2014, og var í leikmannahópi liðsins í vináttulandsleiknum fyrir EM síðasta sumar.
Ujkani og hægri bakvörðurinn Fanol Përdedaj hafa spilað alla 11 landsleiki Kósóvó. Përdedaj lék áður með U21- og U19-landsliðum Þýskalands.
Líklegt byrjunarlið Kósóvó:
Mark:
Samir Ujkani, Pisa (Ítalíu)
Vörn:
Fanol Përdedaj, 1860 München (Þýskalandi)
Alban Pnishi, Grasshopper (Sviss)
Amir Rrahmani, Lokomotiva Zagreb (Króatíu)
Benjamin Kololli, Lausanne-Sport (Sviss)
Miðja:
Milot Rashica, Vitesse (Hollandi)
Herolind Shala, Kasimpasa (Tyrklandi)
Valon Berisha, Red Bull Salzburg (Austurríki)
Hekuran Kryeziu, Luzern (Sviss)
Arber Zeneli, Heerenveen (Hollandi)
Sókn:
Besart Berisha, Melbourne Victory (Ástralíu)