„Þvílíkur léttir“

Björn Bergmann Sigurðarson í leiknum í kvöld.
Björn Bergmann Sigurðarson í leiknum í kvöld. AFP

Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í kvöld þegar Ísland vann mikilvægan 2:1 sigur á Kósóvó í Shkodër í undankeppni HM í knattspyrnu. 

„Það var frábær tilfinning og þvílíkur léttir. Ekki skemmir fyrir að skora fyrsta landsliðsmarkið í sigurleik. Það er auðvitað rosalega mikilvægt fyrir framherja og maður veit að maður getur skorað í næstu leikjum,“ sagði Björn í samtali við mbl.is að leiknum loknum en hann kom Íslandi í 1:0 þegar hann fylgdi á eftir skoti Gylfa Sigurðssonar sem var varið.

„ Ég sá þetta skot hjá Gylfa og það var geðveikt að ná að vera kominn á réttan stað fyrst markvörðurinn náði að verja frá honum,“ sagði Björn í samtali við mbl.is og hafa nú fjórir bræður af Akranesi skorað fyrir landsliðið en hálfbræður Björns sem um ræðir eru Þórður, Bjarni og Jóhannes Karl Guðjónssynir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert