Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sagði íslenska landsliðið hafa sýnt í kvöld að það getur náð góðum úrslitum þótt ekki takist að sýna allar bestu hliðarnar þegar Ísland vann Kósóvó 2:1 í undankeppni HM.
„Ég er virkilega ánægður. Það sýnir karakterinn í liðinu að við spiluðum ekki vel en náðum þremur stigum á móti fínu liði. Við verðum að bera virðingu fyrir þeirra spilamennsku. Þeir gerðu vel og voru sterkir. Það var kraftur í þeim og við megum prísa okkur sæla með að ná í þrjú stig hérna. Við sýndum að við getum náð í úrslit þótt við spilum ekki vel,“ sagði Aron Einar og tók undir vangaveltur blaðamanns um að breiddin í íslenska hópnum sé meiri en margir gera sér grein fyrir ef mið er tekið af því að Ísland vann útisigur þegar fimm fastamenn forfölluðust.
„Já ég myndi segja það. Ég hef áður sagt að við höfum verið saman svo lengi að allir vita til hvers er ætlast af þeim þegar þeir koma inn í liðið. Það er jákvætt og reynslan í hópnum er gífurleg. Við erum auk þess á góðum aldri og getum horft ánægðir fram á veginn. Ég var ánægður með hvernig þeir sem lítið hafa fengið að spila komu inn í verkefnið. Aðalmálið var að ná í þrjú stig og það er það allra besta.“
Framundan virðist vera bullandi toppbarátta hjá Íslandi og þar af leiðandi barátta um að komast í lokakeppni HM í fyrsta skipti. „Við vissum að riðillinn yrði jafn. Það sýnir styrkleikann í þessum riðli að þar eru fjögur lið sem voru á EM í fyrra. Hvert mark kemur til með að skipta máli. Fyrst við náðum þremur stigum í kvöld þá er leikurinn gegn Króatíu í sumar orðinn gífurlega mikilvægur. Þar þurfum við þó að spila betur ef við ætlum að ná einhverju út úr honum,“ sagði fyrirliðinn ennfremur við mbl.is í Albaníu í kvöld.