„Við vissum að þetta yrði erfitt og það var nákvæmlega það sem gerðist,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, þegar niðurstaðan lá fyrir á Loro Borici-leikvanginum í kvöld.
Ísland vann þar Kósóvó 2:1 í undankeppni HM eftir baráttuleik þar sem Ísland komst í 2:0 en Kósóvó minnkaði muninn snemma í síðari hálfleik.
Spurður um þá ákvörðun að hafa Jón Daða Böðvarsson sem varamann þá sagði Helgi það ágætan kost að fá hann óþreyttan inn á með þeirri vinnslu sem honum fylgir en Jón Daði hefur iðulega byrjað inn á í mótsleikjum síðan haustið 2014.
„Við vorum í þrjá daga á Ítalíu með strákunum og það voru allir mjög jafnir þar. Þetta var bara ákvörðun sem við tókum um að byrja leikinn svona. Þá var alltaf gott að eiga Jón Daða í bakhöndinni og geta skipt honum inn á. Maður sá líka hversu mikilvægt það var í seinni hálfleik,“ sagði Helgi en viðtalið við hann í heild sinni er að finna í meðfylgjandi myndskeiði.