„Við gerðum gríðarlega vel“

Hannes Þór Halldórsson stendur í ströngu í kvöld. Kósóvar skoruðu …
Hannes Þór Halldórsson stendur í ströngu í kvöld. Kósóvar skoruðu þarna mark en eins og sjá má er aðstoðardómarinn búinn að gefa merki um rangstöðu. AFP

„Það var alveg ljóst að þessi leikur væri lífsnauðsynlegur til að koma okkur í góða stöðu,“ sagði markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson eftir fyrsta útisigur Íslands í undankeppni HM 2018 í Shkodër í kvöld. 

„Við gerðum gríðarlega vel í dag með því að vinna og búa til toppslag í Reykjavík í júní. Við erum staðráðnir í því að komast til Rússlands og þetta var lykilleikur í því að ná upp takti fyrir lokasprettinn,“ sagði Hannes en Ísland sigraði Kósóvó 2:1 og er í 2. sæti riðilsins en Ísland fór upp fyrir Úkraínu sem tapaði í Króatíu. 

„Maður fann það alveg í byrjun leiks og í byrjun seinni hálfleiks að þetta er hörkufótboltalið. Þeir komu á okkur af gríðarlegum krafti með stóra menn frammi og flinka menn fyrir utan vítateiginn. Með áhorfendur með sér fundu þeir að það var möguleiki að ná einhverju út úr þessum leik. Það var kraftur í þeim og þeir hafa kannski metið það þannig að þetta væri góður möguleiki fyrir þá þar sem margir leikmenn voru frá hjá okkur. Fyrir okkur var gríðarlega sterkt að koma inn í svona hættulegan leik og komast frá honum með þrjú stig er geðveikt. Við vorum metnir sterkari aðilinn en þeir voru að fá inn fullt af mönnum og við á útivelli. Það var margt sem þurfti að varast við þennan leik,“ sagði Hannes í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka