Blikar fá varnarmann frá Norwich

Michee Efete.
Michee Efete. Ljósmynd/Twitter

Breiðablik hefur fengið varnarmann að láni frá Norwich sem leikur í ensku B-deildinni í knattspyrnu.

Um er að ræða Michee Efete sem er tvítugur miðvörður og einn af lykilmönnum varaliðs Norwich, segir á stuðningsmannasíðu Blika. Hann er með ríkisborgararétt á Englandi og í Kongó.

„Michee er fljótur og leikinn varnarmaður sem einkum hefur spilað í hjarta varnarinnar. En hann getur einnig leyst báðar bakvarðarstöðurnar,“ segir á síðu Blika.

Þá er það einnig orðið ljóst að Elfar Freyr Helgason mun ekki snúa aftur til Blika áður en félagaskiptaglugginn lokar 15. maí, en hann er á láni hjá Horsens í Danmörku.

Eins og áður kom fram á mbl.is í dag þá hefur Arnar Grétarsson verið rekinn sem þjálfari Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert