Haraldur handarbrotnaði fyrir stórleikina

Haraldur var í marki Stjörnunnar í sigrinum á Fjölni í …
Haraldur var í marki Stjörnunnar í sigrinum á Fjölni í gærkvöld en meiddist svo í dag. mbl.is/Ófeigur

Haraldur Björnsson mun ekki verja mark Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu næstu vikurnar eftir að hann handarbrotnaði á æfingu í dag.

Haraldur hefur varið mark Stjörnunnar í fyrstu fimm leikjum deildarinnar og aðeins fengið á sig 5 mörk, en Stjarnan er á toppnum. Næsti leikur liðsins er gegn bikarmeisturum Vals í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins á miðvikudag og á sunnudag bíður Stjörnunnar annar stórleikur við Íslandsmeistara FH í deildinni.

Sveinn Sigurður Jóhannesson kemur til með að verja mark Stjörnunnar í þessum leikjum, að sögn Rúnars Páls Sigmundssonar þjálfara:

„Það er synd að þetta gerist núna, en við treystum Svenna fullkomlega í þetta verkefni. Við erum með tvo hörkumarkmenn svo þetta hefur engin áhrif á okkur,“ sagði Rúnar, sem kvaðst reikna með að Haraldur yrði frá keppni í 3-4 vikur. Ekki er ljóst hvaða markmaður verður til taks á varamannabekknum í næstu leikjum, en það gæti komið í hlut markmannsþjálfarans Fjalars Þorgeirssonar, segir Rúnar:

„Ætli það verði ekki 2. flokks markvörður eða Fjalar? Fjalar er skráður í Stjörnuna, en við sjáum bara til hvernig leysist úr þessu. Annars fer ég bara í markið,“ sagði Rúnar léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert