Sindri Snær tvíhandarbrotinn

Sindri Snær Jensson.
Sindri Snær Jensson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Sindri Snær Jensson, markvörður KR-inga, tvíhandarbrotnaði í leik ÍR og KR í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu á Hertz-vellinum í Breiðholti í gær þar sem KR-ingar slógu út heimamenn í bráðabana í vítaspyrnukeppni.

Sindri, sem tók við markvarðarstöðunni eftir að Stefán Logi Magnússon gekkst undir aðgerð á hné í síðustu viku, þurfti að hætta leik í hálfleik eftir að hafa meiðst eftir viðskipti við Jón Gísla Ström, framherja ÍR-inga, snemma í fyrri hálfleik.

„Það er ekki hægt að segja að staðan á mér sé neitt spes,“ sagði Sindri Snær í samtali við mbl.is í morgun.

„Það eru tvö bein brotin í hægri hendinni svo ég er úr leik næstu vikurnar. Jón Gísli sparkaði í höndina á mér af fullu afli eftir að ég hafði handsamað boltann. Ég fann strax að það var eitthvað að í hendinni en hélt samt áfram. Ég fann að höndin dofnaði upp og bólgnaði og ég sagði við Arnar og Henrik í hálfleik að gæti alveg spilað áfram en gæti þó ekki beygt höndina. Ég sagði þeim að taka ákvörðun um það hvort þeir vildu spila áfram eða ekki og úr varð að þeir ákváðu að skipta mér út af. Ég fór strax upp á slysadeild í myndatöku og þar kom í ljós að ég var tvíbrotinn í hendinni,“ sagði Sindri Snær.

Sindri Snær var settur í gifs og það skýrist í dag hvort hann þurfi að gangast undir aðgerð eða ekki.

„Ég verð örugglega frá keppni næstu fjórar til sex vikurnar og það er gríðarlega svekkjandi. Mér leið vel í leiknum í gær áður en þetta gerðist og ég var orðinn mjög spenntur fyrir næstu vikum. Ég var orðinn tvístíga með fótboltann þar sem ég er að reka verslun en ákvað að taka slaginn í boltanum,“ sagði Sindri Snær.

Hinn 19 ára gamli Jakob Eggertsson leysti Sindra Snæ af hólmi og hann endaði sem hetja KR-inga í leiknum í gær því hann varði tvær vítaspyrnur í vítakeppninni. Hann kemur því til með að verja mark KR-inga í næstu leikjum þar sem Stefán Logi verður ekki orðinn leikfær fyrr en eftir nokkrar vikur nema KR-ingar fái leyfi frá KSÍ til að fá markvörð að láni. Þau mál ættu að skýrast í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert