Víkingur R. vann sinn annan leik í Pepsi-deild karla þetta sumarið þegar liðið lagði Fjölni, 2:1, í 6. umferð deildarinnar í Víkinni í kvöld. Víkingar jöfnuðu Fjölni, KR og ÍBV að stigum um miðja deild.
Víkingar höfðu mikla yfirburði framan af leik þar sem Fjölnismenn náðu varla nema þremur sendingum sín á milli áður en þeir misstu boltann. Þrátt fyrir að Víkingar hafi verið sterkari aðilinn voru það gestirnir sem komust yfir úr sínu fyrsta færi í leiknum á 20. mínútu.
Eftir innkast lagði Marcus Solberg boltann inn í teig þar sem Þórir Guðjónsson kom honum í netið. Staðan 1:0 fyrir Fjölni. Víkingar héldu áfram sínum yfirburðum eftir markið en sem fyrr reyndist erfitt að skapa sér teljandi færi. Staðan 1:0 fyrir Fjölni í hálfleik.
Eins og í fyrri hálfleiknum höfðu Víkingar mikla yfirburði eftir hlé og sókn þeirra bar loksins ávöxt á 59. mínútu. Eftir stutta hornspyrnu komst Ragnar Bragi Sveinsson upp að endamörkum, renndi boltanum fyrir þar sem Ivica Jovanovic skilaði honum í netið og jafnaði metin fyrir heimamenn, 1:1.
Það breytti gangi leiksins ekki mikið og Víkingar héldu áfram að sækja. Á 70. mínútu komust þeir yfir þegar Vladimir Tufegdzic skoraði úr vítaspyrnu eftir að Torfi T. Gunnarsson hafði gerst brotlegur innan teigs. Staðan 2:1 fyrir heimamenn og tuttugu mínútur eftir.
Það reyndist sigurmark leiksins og fyrsti deildarsigur Víkinga undir stjórn Loga Ólafssonar staðreynd í fyrsta leiknum þar sem Bjarni Guðjónsson er til aðstoðar. Víkingur komst með sigrinum upp í miðjumoðið og er með 7 stig eins og KR, Fjölnir og ÍBV í 7.-10. sæti deildarinnar.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar er fjallað um þennan leik eins og alla aðra leiki kvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins með morgni. Viðtöl koma hér inn á vefinn síðar í kvöld.