„Algjörlega draumkennt augnablik“

Hannes Þór Halldórsson fagnar ásamt íslenska landsliðinu í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson fagnar ásamt íslenska landsliðinu í kvöld. mbl.is/Hanna

„Taugarnar voru þandar en þetta var þeim mun sætara að ná að klára þetta,“ sagði markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson eftir magnaðan 1:0-sigur Íslands á Króatíu á troðfullum Laugardalsvelli í kvöld. Hannes sparaði ekki lýsingarnar eftir leik.

„Þetta var gjörsamlega ótrúleg stund að ná að vinna þá svona, halda hreinu og skora í uppbótartíma hérna á heimavelli í júnímánuði. Þetta gerist ekki sætara og er algjörlega draumkennt augnablik,“ sagði Hannes, en sigurmarkið skoraði Hörður Björgvin Magnússon á 90. mínútu.

Hannes var sjálfur farinn að hrópa og kalla til himins eftir kraftaverki og það er óhætt að segja að hann hafi verið bænheyrður.

„Ég stóð aftast og sagði bara „plís, plís, plís, plís.“ Það voru greinilega einhver æðri máttarvöld sem voru að hlusta því við náðum að pota honum inn. Þetta er augnablik sem manni dreymir um að upplifa, miðað við stöðuna í riðlinum, söguna á móti Króötum og bara allt sem var undir,“ sagði Hannes og hélt áfram.

„Fyrir það fyrsta eru 1:0-sigrar þar sem þú skorar í uppbótartíma alltaf sætustu sigrarnir, en ég tala nú ekki um við svona tilefni og á svona stundu. Þetta verður extra sætt og hálf ólýsanlegt. Við þráðum að vinna þá og að vinna á þennan hátt er extra sætt. Það er svo margt við þetta sem gerir þetta ljúft og er eins og maður hefði teiknað þetta upp fyrir leik,“ sagði Hannes.

Stemningin á Laugardalsvelli var algjörlega mögnuð og Hannes talaði sérstaklega til stuðningsmanna Íslands.

„Stemningin var algjörlega mögnuð eins og hún hefur verið síðustu fjögur ár og einhvern veginn tekst fólki alltaf að toppa sig. Þetta var ótrúleg stund. Við leyfum okkur að njóta þessa núna í kvöld og næstu daga að fara í fríið með þessu frábæru úrslit á bakinu. Það hefði ekki verið hægt að ljúka tímabilinu betur en svona,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert