„Ég er virkilega stoltur af strákunum að hafa náð í þessu þrjú stig,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í samtali við mbl.is eftir magnaðan 1:0-sigur Íslands á Króatíu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Þjóðirnar eru nú efstar og jafnar í riðlinum.
„Við þurftum á þessu að halda. Á 89. mínútu vorum við í fjórða sæti í riðlinum en það er virkilega sterkt að ná þessum þremur stigum. Við vildum ekki segja það fyrir leikinn en ef Króatar hefðu unnið væru þeir hreinlega of langt í burtu frá okkur í riðlinum. Þetta hefur verið hark, en við fórum vel yfir þá í vikunni og það voru langir fundir sem voru leiðinlegir stundum en margborguðu sig,“ sagði Aron Einar.
„Við náðum að loka á þá í dag, þeir komust þrisvar eða fjórum sinnum í fljóta sókn þar sem við vorum sofandi á verðinum en annars fannst mér þeir ekki fá nein færi þannig séð. Það var virkilega sterkur varnarleikur sem skóp þennan sigur,“ sagði Aron Einar.
Leikurinn var mikil refskák og nánast ekkert um opin færi, enda var það allt eftir áætlun.
„Þetta var ekki skemmtilegasti leikur í heimi, ég get alveg viðurkennt það enda var hann aldrei að fara að vera það. Við ætluðum aldrei að leyfa leiknum að vera opinn, því ef þetta hefði verið opinn leikur þá hefðu þeir klárlega unnið þar sem þeir eru með betri einstaklinga en við. Við vissum það fyrir leikinn,“ sagði Aron. En komu Króatarnir eitthvað á óvart?
„Nei, ekki neitt. Við höfum verið á löngum fundum og horft nánast á hverja einustu klippu sem til er af þeim. Heimir og Helgi gerðu vel í að sýna leikinn sem við töpuðum gegn þeim úti sem hvatti okkur ennþá meira og gerði okkur hungraðri í sigur. Við þurftum virkilega á honum að halda,“ sagði Aron Einar Gunnarsson við mbl.is í kvöld.