Þeir voru slakari en ég bjóst við

Alfreð Finnbogason sækir að Domagoj Vida í leiknum í kvöld.
Alfreð Finnbogason sækir að Domagoj Vida í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

„Ef eitthvað lið átti skilið að vinna þá var það við,“ sagði Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji Íslands, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur Íslands á Króatíu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta er frábær tilfinning. Það stefndi allt í 0:0 og það sást að þeir voru nokkuð sáttir með það. Það var geggjað að klára þetta í lokin og halda áfram að ná þessum góðu úrslitum á heimavelli,“ sagði Alfreð. Hann var einn í fremstu víglínu Íslands, en yfirleitt hefur liðið spilað með tvo framherja. Hvernig var að berjast við króatísku vörnina?

„Ég vissi að þetta yrði erfitt, þetta var leikur þar sem þurfti að halda varnarvinnunni en berjast svo og reyna að skrapa upp þau augnablik sem við fáum. Það var mikilvægast að vinna fyrir liðið, djöflast og trufla þá og mér fannst það takast ágætlega. Við vorum að halda áfram að berjast og sóttum okkar lukku í þessum leik,“ sagði Alfreð, en kom eitthvað á óvart við leik Króata?

„Þeir voru eiginlega slakari en ég bjóst við. Þeir sköpuðu ekki mörg opin færi og ef eitthvað er þá fannst mér þetta verðskuldað, þó jafntefli hefði verið sanngjarnt. En við sýndum mikinn vilja til þess að taka þessi þrjú stig,“ sagði Alfreð.

Leikurinn markaði endalok tímabilsins hjá honum, en veturinn einkenndist af miklum meiðslum þar sem Alfreð var meðal annars frá í hálft ár. Hversu mikils virði er að enda tímabilið svona

„Þetta var mjög langt og á tímum leiðinlegt tímabil. Maður er búinn að vera með þennan leik lengi í hausnum; hversu frábært það yrði að klára svona langt tímabil með sigri á Króötum sem eru með bestu tíu liðum í heiminum alveg pottþétt. Það er geggjuð tilfinning og nú fer maður með bros á vör í sumarfríið,“ sagði Alfreð Finnbogason í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert