„Það hefur verið svolítið um meiðsli hjá okkur og sumir spilað lítið undanfarið og að ná að vinna þetta lið er gríðarlega sterkt og þetta er hrikalega sætt," sagði Birkir Bjarnason, miðjumaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu eftir glæsilegan 1:0 sigur á Króatíu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Sigurmarkið kom í blálokin, skalli frá Herði Björgvini Magnússyni eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.
„Við vitum að við getum alltaf skorað mark og við okkur tekst alltaf að skapa okkur færi. Jói fékk hrikalega stórt færi í lokin, rétt áður en við skoruðum og sem betur fer tókst okkur að gera eitthvað við hornspyrnuna sem fylgdi."
„Ég held allir hafi haldið að boltinn væri að fara yfir því þetta var nú ekki góður skalli. Sem betur fer fór hann samt inn og þetta var hrikalega mikilvægt."
Birkir var að leika sinn fyrsta leik síðan í mars, en hann komst mjög vel frá sínu í dag.
„Mér líður vel núna, ég hef ekki spilað þrjá mánuði og það er svolítið mikið. Ég hef verið að æfa gríðarlega vel, bæði með landsliðinu og ég sjálfur. Ég náði mér í mjög gott form og eina sem vantaði var leikformið og það var lítið hægt að gera í því. Mér leið mjög vel á vellinum, þó ég hafi verið orðinn þreyttur í lokin. Við vorum fleiri sem höfðum ekki verið að spila undanfarið og það var gríðarlega sterkt að klára þetta."