Ætlar að gera eitthvað á HM í Rússlandi

Ragnar Sigurðsson er brattur fyrir leikinn gegn Króatíu.
Ragnar Sigurðsson er brattur fyrir leikinn gegn Króatíu. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

Landsliðsmiðvörðurinn Ragnar Sigurðsson var í viðtali við vefsíðuna Goal.com í vikunni og ræddi hann leikinn gegn Króatíu í undankeppni HM í knattspyrnu sem fram fer á Laugardalsvelli í kvöld. 

Ragnar virðist ekki hafa of miklar áhyggjur af Króötum og fer hann brattur inn í verkefnið mikilvæga. 

„Trúin sem fólkið heima á Íslandi hefur á okkur er mögnuð. Líka í leikjum eins og á móti Króatíu, allir halda að við séum að fara að vinna alla leiki. Ef við myndum mæta Englendingum aftur, myndu stuðningsmennirnir vera sigurvissir.“

Ragnar var svo spurður út í EM í Frakklandi þar sem Ísland komst alla leið í átta liða úrslit. Hann hefur trú á liðið geti náð enn lengra á HM í Rússlandi. 

„Það væri enn betra að komast á HM en EM, en bara að komast á HM væri ekki meira afrek en það sem við gerðum í Frakklandi. Við þyrftum að gera eitthvað á HM til að toppa það sem við gerðum á EM. Við reynum hins vegar að halda okkur á jörðinni og byrja á að komast á heimsmeistaramótið,“ sagði Ragnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert