Króatíski miðjumaðurinn Luka Modric býst við erfiðum leik á Laugardalsvelli í kvöld þegar Ísland tekur á móti Króatíu í undankeppni HM í knattspyrnu. Fyrir leik dagsins er Króatía í efsta sæti I-riðils undankeppninnar með 13 stig. Ísland er í öðru sæti með 10 stig.
„Þeir spila af mikilli hörku og gefast aldrei upp. Við þurfum að berjast og sýna vilja og þá munu gæði okkar koma í ljós,“ sagði Modric en hann er fyrirliði Króata.
„Við sýnum þeim virðingu en við erum Króatía og verðum að vinna,“ bætti Modric við. Króatískir blaðamenn spurðu fyrirliðann út í slæmt gengi liðsins í leikjum í undankeppni sem hafa verið leiknir í júní. Modric vonast til að það hafi ekki áhrif í kvöld.
„Það er verst að leika þessa leiki í lok tímabils. Við þurfum að einbeita okkur og ég er viss um að við munum leika vel.“