„Mér fannst þetta góður sigur, ekta vinnusigur og við náðum að koma inn góðu marki,“ sagði Hildur Antonsdóttir, sem átti mikinn þátt í 1:0 sigri á Breiðabliks á Stjörnunni í kvöld þegar 8. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu hófst.
Hildur var óþreytandi og vinnusöm á miðjunni, gaf sig í alla bolta. „Við ætluðum bara að berjast fyrst og fremst en hafa gaman af þessu og spila okkar bolta. Ég held að við höfum slakað aðeins á í seinni hálfleik og að sama skapi bætti Stjarnan aðeins í, var orðin líkleg til einhvers í lokin en við náðum sigri að lokum og það skiptir öllu máli.“
Sigur Breiðabliks kom liðinu upp í annað sæti deildarinnar en Þór/KA hefur náð góðu forskoti. Hildur lætur það ekki slá sig útaf laginu. „Við verðum að halda áfram og hugsa um okkur sjálfar, taka bara einn leik fyrir í einu sem er markmiðið nú,“ bætti Hildur við.