Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara FH, segist orðinn þreyttur á að horfa á sína menn gera jafntefli og skyldi engan undra því þau eru orðin fimm í fyrstu átta leikjunum.
„Við erum frábært fótboltalið en það þarf að spila í 90 mínútur og rúmlega það. Í mörgum leikjum ætlum við að redda hlutunum á síðustu metrunum og sjá hvað við komumst upp með. Það gengur ekkert upp til lengdar og þá fáum við ekki úrslit. Það er ekkert svakalega flókið,“ sagði Heimir meðal annars þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn eftir 2:2 jafntefli gegn Víkingi í Kaplakrika í kvöld og kallaði þetta „bíða og sjá syndrome.“
„Við vorum sjálfum okkur verstir. Byrjuðum þennan leik vel, spiluðum fínt og komumst yfir sanngjarnt. Í framhaldinu kom hefbundið bíða og sjá syndrome þar sem við bíðum eftir því sem þeir ætla að gera til að reyna að sjá hvað við komumst upp með í leiknum í staðinn fyrir að sýna smá drápseðli og ganga í verkin. Þeir jafna leikinn og svo skoruðum við aftur. Eftir að þeir jafna (2:2) þá sýnum við aftur smá þunga en ég skila það ekki. Það hlýtur að vera miklu betra að skora eitt og fylgja því eftir frekar en að fara alltaf í gang þegar leikirnir eru jafnir eða við lentir undir,“ sagði Heimir Guðjónsson.
„Förum sáttir héðan með stig“
Log Ólafsson hefur blásið lífi í lið Víkings sem ekki hefur tapað undir hans stjórn. Telst stig gegn meisturunum á útivelli ekki vera góð uppskera? „Jú jú fyrirfram er það þannig. Við förum sáttir héðan með eitt stig. En við vorum klaufar að láta dæma á okkur vítaspyrnu og áttum ágætan möguleika þegar Erlingur komst einn inn fyrir á síðustu mínútunum. Á móti kemur að Lennon átti aukaspyrnu á síðustu mínútunni. Þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að við getum verið ánægðir með stigið,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, í samtali við mbl.is og er skiljanlega ánægður með hvernig hefur gengið frá því hann tók við stjórnartaumunum.
„Mér finnst við svara kallinu yfirleitt mjög vel. Mér fannst við vera full daufir í fyrri hálfleik. Vildum þá ekki halda boltanum og vorum með langar sendingar fram völlinn sem var erfitt fyrir okkur að vinna úr. Þegar menn fóru að átta sig á því að hægt væri að halda boltanum innan liðsins og vera rólegir þá gekk þetta mun betur.“