Vilji stjórnar var að þetta kæmi fram

Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er boðaður á fund í dag og þar er mér tjáð af stjórninni að árangurinn og frammistaða væri óásættanleg og að vilji stjórnar sé að gera breytingu á þjálfaramálum," sagði Ásmundur Arnarsson, fyrrum þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, en hann var rekinn frá félaginu í dag. 

Ásmundur var nokkuð sáttur við þann uppgang sem átti sér stað þegar hann var við stjórn liðsins. 

„Ég var einlægur í þeirri vinnu að byggja upp klúbbinn. Ég hef miklar taugar til Fram og hann er minn fjölskylduklúbbur. Þetta tekur mig því auðvitað sárt. Klúbburinn var ekki á á góðum stað þegar ég tók við og ég taldi mig vera á ágætis leið með að snúa því við og byggja hann upp. Í þessu eru hins vegar ekki allir sammála og stjórnin tekur ákvörðunina. Ég er stoltur af mjög mörgu sem ég gerði fyrir félagið en auðvitað má alltaf gera betur."

Samkvæmt heimildum mbl.is voru leikmenn Fram ósáttir við viðtal sem Ásmundur fór í við mbl.is eftir leikinn gegn Fylki í síðustu umferð. Þar talaði hann opinskátt um ósætti sitt við Ivan Bubalo, framherja liðsins og markahæsta manni deildarinnar. Ásmundur segir viðtalið hafa verið skipun frá stjórnin félagsins. 

„Það viðtal var eftir fund með stjórninni. Vilji stjórnar var að það kæmi skýrt fram að við værum óánægðir með hann og framkomu hans. Þar er ég einfaldlega að framkvæma hlut sem var ákveðinn af stjórn."

Er Ásmundur opinn fyrir að taka við öðru liði fljótlega? 

„Það kemur í ljós, það er svo stutt síðan þetta gerðist að það þýðir ekki að spá í því strax," sagði Ásmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert