Harpa Þorsteinsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna í öruggum 5:0 sigri á Haukum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Harpa kom Stjörnunni í 2:0 með tveimur mörkum á fyrsta hálftímanum. Harpa var á dögunum valin í lokahóp íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið í Hollandi, þrátt fyrir að hafa fætt barn í febrúar á þessu ári.
Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði þriðja mark Stjörnunnar á 44. mínútu og Katrín Ásbjörnsdóttir bætti við fjórða markinu á 63. mínútu. Guðmunda Brynja skoraði sitt annað mark undir blálokin og tryggði Stjörnunni þægilegan 5:0 sigur. Stjarnan er í þriðja sæti með 22 stig en Haukar eru á botninum með aðeins eitt stig.