Kvennalið Breiðabliks verður án fjögurra leikmanna í síðustu sjö umferðum Pepsideildar kvenna í haust þar sem þær eru allar á leið til náms í Bandaríkjunum.
Þetta eru þær Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, Ásta Eir Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir og Esther Rós Arnarsdóttir. Þær þrjár fyrstnefndu hafa allar verið í lykilhlutverkum hjá Blikum í sumar. Þetta lá auðvitað fyrir áður en deildarkeppnin hófst en Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks, staðfesti þetta á fotbolti.net í gærkvöldi.
Þar segir hann óvíst hvernig brugðist verði við þessu hjá félaginu en segir jafnframt að það muni koma í ljós í vikunni hvað verður gert. Hann bendir þó á að leikmannahópurinn hjá Breiðabliki sé ágætlega mannaður og því sé engin ástæða til að stressa sig yfir brotthvarfi fjórmenninganna, þetta verði bara skoðað í rólegheitunum.