Óttar Magnús sendur í „frí“

Óttar Magnús Karlsson í leik með íslenska landsliðinu.
Óttar Magnús Karlsson í leik með íslenska landsliðinu. AFP

Óttar Magnús Karlsson framherji norska úrvalsdeildarliðsins Molde hefur verið sendur heim til Íslands í frí af Ole Gunnari Solskjær þjálfara liðsins að því er norskir fjölmiðlar greina frá í dag.

„Óttar hefur æft mjög vel og er ákafur en hefur ekki fengið mikinn spiltíma. Þetta hefur tekið svolítið á hann andlega og á sjálfstraustið og við fundum út úr því að það væri best fyrir hann að fara til Íslands í smá frí. Við sáum það í leikjum okkar á undirbúningstímabilinu hvað hann á hinni,“ segir Solskjær í samtali við vefinn rbnett en Óttar var ekki í leikmannahópi Molde í gær þegar liðið lagði Viking að velli, 3:2.

Molde keypti Óttar Magnús frá Víkingi í nóvember í fyrra en hafði þá komið aftur til uppeldisfélags síns frá hollenska liðinu Ajax fyrir tímabilið og sló í gegn. Hann skoraði 9 mörk á tímabilinu og var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar.

Óttar Magnús hefur komið við sögu í átta leikjum með Molde á tímabilinu en aðeins í tveimur þeirra hefur hann verið í byrjunarliðinu.

Samkvæmt heimildum mbl.is þá hafa Víkingar kannað stöðu mála hjá Óttari með það fyrir augum að fá hann að láni þegar opnað verður fyrir félagaskipti þann 15. júlí en Óttar Magnús er 20 ára gamall sem á að baki 3 leiki með A-landsliðinu og þá hefur hann leikið með öllum yngri landsliðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka