Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, er á leið í sinn þriðja bikarúrslitaleik. Hann stýrði Keflvíkingum til sigurs 2006 og tapaði í úrslitum með Keflvíkinga 2014, en nú er komið að því að stýra Eyjamönnum á Laugardalsvelli gegn FH á morgun.
„Það er fólk í Eyjum sem þekkir það að fara í úrslitaleikinn og undirbúningurinn er allur mjög góður. Ég hef engar áhyggjur af því, það er bara spurningin hvernig við munum stilla upp liðinu og ganga inni á vellinum. En undirbúningurinn hefur verið á réttri leið,“ sagði Kristján við mbl.is.
Eyjamenn fóru einnig alla leið í fyrra en töpuðu þá fyrir Valsmönnum. Finnur Kristján fyrir grimmd í hópnum að hefna fyrir sneypuförina upp á land í fyrra?
„Ég hef talað um það, en það þarf að fara varlega í slíka hluti. Það er áfall að tapa bikarúrslitaleik, en menn gleyma því oft að þeir hafa unnið fyrir því að komast í leikinn. Menn halda að allt sé ónýtt af því þeir töpuðu úrslitaleiknum en bera ekki virðingu fyrir fyrri hluta keppninnar. Við munum gera allt til þess að snúa hugarheimi þeirra sem spiluðu í fyrra í þá átt að við ætlum einu skrefi lengra,“ sagði Kristján.
En hvernig gengur að einbeita sér að þessum leik þegar Eyjamenn eru í harðri fallbaráttu í deildinni?
„Það hefur tekist mjög vel að einangra þessa bikarleiki og við náðum alveg gríðarlega góðri stemningu fyrir undanúrslitaleikinn. Ég trúi ekki öðru en við náum því líka fyrir úrslitaleikinn og svo þarf að smita það út í deildina það sem eftir er.“
Eyjamenn eru þekktir fyrir mikla stemningu og stuðning á bak við sín lið, en er fólk nokkuð útbrunnið eftir Þjóðhátíðina um síðustu helgi?
„Fólk er að jafna sig, við erum að ganga frá í dalnum eftir að Íslendingarnir mættu til Eyja að halda upp á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Þetta er samt allt að koma, við vorum pínu þreyttir á þriðjudaginn í Fossvoginum [gegn Víkingi R.], ég viðurkenni það, en höfum jafnað okkur og fólkið líka. Það er stemning farin að myndast í Eyjum og ég hef trú á því að það verði stuð og stemning í stúkunni,“ sagði Kristján og undirstrikaði mikilvægi þess að fá góðan stuðning.
„Á meðan við heyrum í stuðningsmönnunum allan tímann þá vitum við að þeir eru þarna til þess að styðja okkur og þá líður okkur miklu betur. Menn tala oft um að vanta stuðning úr stúkunni, og stundum þyrftum við kannski bara að taka stuðningsmennina til okkar á bekkinn til þess að þeir átta sig á því að þeir skipta gríðarlega miklu máli,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.