Bakvörðurinn efnilegi, Felix Örn Friðriksson, var í liði ÍBV sem tapaði í bikarúrslitum í fyrra og gat því leyft sér að fagna í dag þegar ÍBV vann FH í úrslitum Borgunarbikarsins á Laugardalsvelli.
„Við lærðum klárlega af úrslitaleiknum í fyrra en þá var frammistaðan alls ekki nógu góð þótt það sé sterkt að komast í úrslit tvö ár í röð. En þetta verður ekki sætara en að vinna bikarinn. Þar fær maður bara eitt tækifæri og við nýttum hann í dag. Ef við myndum fá þessa bikarstemningu í deildarleikjunum þá værum við miklu ofar í deildinni,“ sagði Felix þegar mbl.is tók hann tali að leiknum loknum en þar vann ÍBV 1:0.
„Við vildum þetta meira og eigum hundrað sinnum betri stuðningsmenn. Það er svona stemning sem gerir þessa eyju frábæra,“ sagði Felix en stuðningsmenn ÍBV sungu Eyjalög allan leiktímann í dag.