ÍBV sigraði í Borgunarbikar karla í knattspyrnu. ÍBV hafði betur 1:0 gegn FH í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli. Fyrsti titill karlaliðs ÍBV í nítján ár.
Gamli markahrókurinn, og aðstoðarþjálfari liðsins, Gunnar Heiðar Þorvaldsson tryggði ÍBV bikarinn með eina marki leiksins á 37. mínútu. Markið kom eftir skyndisókn og fínan undirbúning Færeyingsins Kaj Leo i Bartalsstovu.
ÍBV er í fallsæti í deildinni með einungis þrjá sigra en Eyjamenn létu það ekki trufla sig og voru mun sterkari í fyrri hálfleik. ÍBV stjórnaði þá leiknum og forysta þeirra var verðskulduð að loknum 45 mínútum.
FH-ingar hresstust í síðari hálfleik. Þeir sóttu smám saman í sig veðrið og sóknir þeirra þyngdust mjög um miðjan síðari hálfleik. ÍBV sem lék með fimm manna vörn í dag tókst að standa það af sér.
Á lokakaflanum tóku FH-ingar áhættu og tefldu fram fleiri leikmönnum í sókninni. Eyjamenn fengu þá nokkrar skyndisóknir sem þeir hefðu getað nýtt sér til að gera út um leikinn. Það tókst ekki og spennan hélst því þar til góður dómari leiksins, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, flautaði af eftir þrjár mínútur í uppbótartíma.
Eyjamenn léku einnig til úrslita í keppnina í fyrra á móti Val. Þá þótti liðið ekki standa sig vel og tapaði en í Eyjum virðast menn hafa dregið lærdóm af þeirri reynslu. Kristján Guðmundsson, sem tók við þjálfun liðsins í vetur, lagði þennan úrslitaleik vel upp og FH-ingar áttu ekki mörg góð marktækifæri í leiknum þegar uppi var staðið. Til að mynda átti FH ekki eina skottilraun í fyrri hálfleik.
Aðeins er um þriðja tap FH í sumar að ræða í deild og bikar. En liðið missir af bikarmeistaratitlinum og er í 3. sæti í deildinni þrátt fyrir fá töp.