Sögufrægur bikarúrslitaleikur 1972

Bikarmeistaralið ÍBV árið 1972.
Bikarmeistaralið ÍBV árið 1972. Ljósmynd/Sigurgeir Jónasson

FH og ÍBV mætast nú í annað sinn í úrslitaleik bikarkeppni karla í knattspyrnu. Fyrsta og eina skiptið sem þessi lið hafa mæst í bikarúrslitum fram að þessu var árið 1972 þegar þau áttust við í sögufrægum leik sem fram fór 12. nóvember í nístingskulda á Melavellinum. ÍBV vann leikinn 2:0 og varð bikarmeistari í annað sinn, en FH þurfti að bíða í rúm 30 ár til viðbótar eftir fyrsta titli sínum í knattspyrnu.

Bikarkeppnin fór á þessum tíma fram að hausti. Úrslitaleikur liðanna 1972 átti fyrst að fara fram laugardaginn 4. nóvember en vegna veðurs var honum frestað þar til helgina eftir. Eins og rifjað er upp í bókinni Bikardraumar eftir Skapta Hallgrímsson um sögu bikarkeppninnar höfðu Eyjamenn ætlað að fara fljúgandi milli lands og Eyja, en ekki hafði veðrið skánað. Ferjan Herjólfur var í slipp og því sótti varðskipið Ægir, með Guðmund Kjærnested við stjórnvölinn, knattspyrnulið ÍBV til Eyja og kom því í tæka tíð til Reykjavíkur fyrir leikinn sunnudaginn 12. nóvember.

Hávaðarok og kalt þennan dag

„Leikurinn á laugardaginn var því miður leikinn við mjög erfið skilyrði, völlurinn var að vísu í mjög góðu standi, en veðrið var þeim mun leiðinlegra, hávaðarok og kuldi. Leikurinn bar óneitanlega svip af veðurfarinu og varð ekki eins góður og þessi lið geta sýnt. Tækifærin voru þó mýmörg í leiknum og það var ósjaldan sem hinir fáu en æstu áhorfendur tóku kipp þegar knötturinn dansaði við mörkin,“ segir Ágúst Ingi Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins, í umsögn sinni um leikinn í blaðinu.

Haraldur Júlíusson, oftast kallaður Haraldur gullskalli, skoraði bæði mörk ÍBV í leiknum. Fyrra markið kom á 16. mínútu eftir að Tómas Pálsson lék með boltann og gaf fyrir markið, þar sem Haraldur afgreiddi boltann í netið. Haraldur var svo aftur á ferðinni á 77. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Einars Friðþjófssonar og rak endahnútinn á snarpa sókn ÍBV.

Greinina í heild sinni má finna í 12 síðna sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um bikarúrslitaleik karla.

Haraldur Júlíusson skorar hér annað mark ÍBV í leiknum fræga …
Haraldur Júlíusson skorar hér annað mark ÍBV í leiknum fræga 1972 án þess að Ómar Karlsson í marki FH komi vörnum við.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert