Karlalið ÍBV í knattspyrnu fagnaði fyrsta stóra titli sínum í nítján ár á laugardaginn þegar liðið hafði betur gegn FH, 1:0, í úrslitaleik Borgunarbikarsins á Laugardalsvelli. Gunnar Heiðar Þorvaldsson, einn reyndasti atvinnumaður sem komið hefur frá Vestmannaeyjum, skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu og tryggði ÍBV bikarinn.
ÍBV fékk skyndisókn og Færeyingurinn Kaj Leo i Bartalsstovu, sem var um tíma hjá FH, gaf fyrir markið og Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom á ferðinni og skoraði af markteig. „Ég tók hann með legghlífinni og það var með vilja. Boltinn var bara í þeirri stöðu en ég náði að stýra honum inn. Þetta var framherjamark og ekki fyrsta ljóta markið sem ég skora,“ sagði Gunnar kampakátur þegar Morgunblaðið ræddi við hann þegar sigurinn var í höfn.
Eyjamenn hafa komist í bikarúrslitaleikinn tvö ár í röð. Í fyrra töpuðu þeir fyrir Val og þóttu þá ekki spila vel. Gunnar, sem er 35 ára, var þá í liði ÍBV og hann viðurkennir að þá taldi hann sig af misst af tækifærinu til að vinna titil með uppeldisfélaginu, en nú er hann jafnframt aðstoðarþjálfari liðsins.
„Þetta gerist ekki sætara og hefur verið draumur frá því maður var peyi. Þegar ég kom heim eftir atvinnumennsku sagðist ég ekki ætla að hætta fyrr en ég hefði unnið titil með ÍBV. Væntanlega hlógu einhverjir að því og að ná því er geggjað. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn hélt ég í fyrra að ég fengi ekki fleiri tækifæri til að vinna titil með ÍBV.“
Nánar er fjallað um bikarúrslitaleikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.