Birkir Már Sævarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á förum frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Hammarby en hann staðfesti þetta við mbl.is í Helsinki í dag.
Birkir, sem er 32 ára gamall, er að leika sitt þriðja tímabil með liðinu og hefur spilað 20 af 21 leik þess í úrvalsdeildinni, alla í byrjunarliði, en samningur hans rennur út um áramótin. Hann hefur leikið sem atvinnumaður frá 2008 þegar hann fór frá Val til Brann í Noregi en þaðan lá leiðin til Hammarby í Stokkhólmi í ársbyrjun 2015.
„Já, viðræðum var slitið í vikunni, við náðum ekki saman og það er ljóst að ég fer frá liðinu þegar tímabilinu lýkur,“ sagði Birkir við mbl.is en níu umferðum er ólokið í deildinni þar sem Hammarby er í 10. sæti af sextán liðum en er þó nær því að komast í baráttu um Evrópusæti en að lenda í fallbaráttu.
Birkir sagðist ekki vera farinn að hugsa mikið um næsta skref á ferlinum. „Nei, þetta er svo nýskeð að við erum rétt svo búin að melta það að við séum að fara að flytja frá Stokkhólmi. Ég er búinn að ræða aðeins við umboðsmanninn og hann er farinn á stúfana en lengra er það ekki komið,“ sagði Birkir en hann sér ekki fyrir sér að ganga til liðs við annað lið í Svíþjóð.
„Það yrði mjög erfitt að spila fyrir annað sænskt félag en Hammarby svo ég reikna með því að fara annað. En annars er ég opinn fyrir öllu, þannig séð. Það sem skiptir máli er að fjölskyldan og ég séum ánægð með staðsetninguna og samninginn,“ sagði Birkir þegar æfing landsliðsins í Helsinki var að hefjast í morgun.
Hann á von á hörkuleik gegn Finnum í undankeppni HM í Tampere á laugardaginn en liðin mætast þar klukkan 16 að íslenskum tíma.
„Ég býst við að mæta fínu og sterku finnsku liði. Finnarnir voru góðir í fyrri leiknum á Laugardalsvellinum (sem Ísland vann 3:2). Þeir eru duglegir, hlaupa út um allt, gefast aldrei upp og eru með mjög fína fótboltamenn inn á milli. Þetta verður jafn leikur eins og allir í þessum riðli og við verðum að vera 100 prósent í lagi til að vinna. Karakterinn ræður úrslitum eins og í síðasta leik gegn þeim, þegar við sýndum að við getum líka unnið leiki á slæmum degi.
Við erum í góðri stöðu á toppi riðilsins og erum einbeittir í því að ná í þrjú stig. Króatar tapa ekki mörgum stigum það sem eftir er svo við verðum helst að vinna alla okkar leiki ef við ætlum að enda fyrir ofan þá í riðlinum og það er okkar hvatning,“ sagði Birkir Már Sævarsson.