Ragnar Sigurðsson spilar í dag sinn 70. landsleik fyrir Íslands hönd þegar Ísland mætir Finnlandi í Tampere og er fjórtándi knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær þessum áfanga fyrir karlalandsliðið.
Fyrstur til að ná 70 leikjum var Atli Eðvaldsson sem spilaði sinn sjötugasta og síðasta landsleik árið 1991 en hann var þá nýbúinn að slá leikjamet Marteins Geirssonar sem spilaði sinn 67. og síðasta landsleik árið 1982.
Það voru Ólafur Þórðarson og Guðni Bergsson sem komust fram úr Atla árið 1996. Rúnar Kristinsson sigldi fljótlega framúr þeim og hefur átt leikjametið frá byrjun aldarinnar en hann lék 104 landsleiki frá 1987 til 2004.
Ragnar lék sinn fyrsta landsleik á Laugardalsvellinum gegn Kanada árið 2007. Frá árinu 2012 hefur hann spilað alla mótsleiki Íslands í undankeppni EM og HM, sem og í úrslitakeppni EM síðasta sumar.
Hann hefur gert þrjú mörk í þessum leikjum en þriðja markið var einmitt hið umdeilda sigurmark gegn Finnum á Laugardalsvellinum í október á síðasta ári, á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar Ísland knúði fram dýrmætan sigur, 3:2.
Eftirtaldir landsliðsmenn hafa náð 70 landsleikjum:
104 Rúnar Kristinsson
89 Hermann Hreiðarsson
88 Eiður Smári Guðjohnsen
80 Guðni Bergsson
74 Birkir Kristinsson
74 Brynjar Björn Gunnarsson
73 Arnór Guðjohnsen
73 Birkir Már Sævarsson
72 Ólafur Þórðarson
72 Aron Einar Gunnarsson
71 Arnar Grétarsson
71 Árni Gautur Arason
70 Atli Eðvaldsson
70 Ragnar Sigurðsson
Birkir Már Sævarsson kemst í dag í 7.-8. sætið þar sem hann nær Arnóri Guðjohnsen með 73 landsleiki og Aron Einar Gunnarsson nær Ólafi Þórðarsyni með 72 leiki í 9.-10. sætinu.