Valur átti ekki í nokkrum vandræðum með fallið lið Hauka þegar liðin áttust við í 16. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld og fór með 8:0-sigur af hólmi.
Staðan í hálfleik var 4:0, en Elín Metta Jensen kom Val á bragðið strax á þriðju mínútu. Hún bætti við marki fyrir hlé og fullkomnaði þrennuna í síðari hálfleik, en hin mörk Vals skoruðu Arna Sif Ásgrímsdóttir, Anisa Guajardo, Stefanía Ragnarsdóttir, Vesna Elísa Smiljkovic og Hlín Eiríksdóttir í uppbótartíma. Lokatölur 8:0.
Þegar tvær umferðir eru eftir er Valur í þriðja sætinu með 34 stig, tveimur stigum á eftir Breiðabliki sem er í öðru sætinu. Haukar hafa hins vegar ekki unnið leik í sumar og er á botninum með eitt stig.