Jónas dregur sig í hlé

Jónas Guðni Sævarsson í leik með Keflavík.
Jónas Guðni Sævarsson í leik með Keflavík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jónas Guðni Sævarsson, knattspyrnumaðurinn reyndi úr Keflavík, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. 

Þetta staðfesti hann við Morgunblaðið í gærkvöld eftir að Keflvíkingar unnu Gróttu, 3:0, og tryggðu sér sæti í efstu deild á ný eftir tveggja ára hlé.

„Ég er að leggja skóna á hilluna. Það verður skrýtið því ég hef verið í þessu frá því ég man eftir mér en ég lenti í meiðslavandræðum í sumar, aðrir tóku þá við og ég hef reynt að stíga til hlðar og vera til taks ef þarf," sagði Jónas við Morgunblaðið eftir leikinn.

Jónas Guðni er 33 ára gamall miðjumaður og lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur 18 ára gamall árið 2002 en í kjölfarið spilaði hann hvern einasta deildarleik liðsins í fjögur ár og varð bikarmeistari með því árið 2004. Hann spilaði með KR 2008 og 2009, vann bikarinn fyrra árið, en lék síðan með sænska félaginu Halmstad í þrjú og hálft ár, þrjú þeirra í sænsku úrvalsdeildinni þar sem hann spilaði 52 leiki.

Jónas sneri aftur heim og lék með KR frá 2012 til 2015 þar sem hann varð Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari en eftir að Keflvíkingar féllu úr úrvalsdeildinni haustið 2015 sneri hann aftur heim og hefur leikið með liðinu tvö síðustu tímabil í 1. deild.

Jónas Guðni hefur samtals leikið 126 deildaleiki fyrir Keflavík og 95 fyrir KR. Hann á að baki 7 A-landsleiki og og 20 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert