Aldursforseti í ungu liði

Anna Björk Kristjánsdóttir fremst á myndinni á æfingu kvennalandsliðsins í …
Anna Björk Kristjánsdóttir fremst á myndinni á æfingu kvennalandsliðsins í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir hefur spilað ansi vel á sinni fyrstu leiktíð með Limhamn Bunkeflo í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liðið vann B-deildina á síðustu leiktíð og er því nýliði í deildinni, en Anna gekk í raðir félagsins frá Örebro, sem leikur í sömu deild.

Markmiðið hjá Bunkeflo var að halda sér í deild þeirra bestu og er liðið í sjötta sæti af tólf liðum með 20 stig eftir 15 leiki. Anna er að vonum sátt með gengi liðsins og eigin spilamennsku.

„Það hefur gengið framar vonum bæði fyrir liðið og sjálfa mig. Við erum um miðja deild og miðað við að við erum nýliðar og með ungan hóp gengur mjög vel. Við erum að halda okkur uppi sem var markmið sumarsins,“ sagði Anna í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í gær. Þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára gömul er Anna elsti leikmaður Bunkeflo, sem staðsett er í Malmö. „Þetta er öðruvísi en í Örebro, ég er elsti leikmaðurinn í liðinu, það er nýtt fyrir mér og svo er Malmö stærri borg. Það er þægilegra að heimsækja mig og fyrir mig að heimsækja fólk.“

Anna hefur í gegnum tíðina verið þekktari fyrir sterkan varnarleik en markanef. Þrátt fyrir það hefur aðeins einn leikmaður liðsins skorað meira en Anna á leiktíðinni. Anna hefur leikið alla 15 leiki liðsins í deildinni og skorað í þeim þrjú mörk.

„Ég er að fara á réttan stað í hornum. Ég hef verið að fara á fjærsvæðið í hornum og það hefur verið að virka og spyrnurnar hafa verið góðar. Það hefur vantað hjá mér að skora eftir horn- og aukaspyrnur í gegnum tíðina. Það hefur hins vegar virkað fyrri hluta tímabilsins þó það sé svolítið langt síðan ég skoraði síðast, ég þarf að kveikja á því aftur. Þetta voru tveir skallar og eitt læri,“ sagði hún og hló. „Ég hef líka gefið stoðsendingar með sköllum, vonandi heldur það áfram.“

Sjá allt viðtalið við Önnu Björk í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert