Sif og Anna Björk tæpar vegna meiðsla

Anna Björk Kristjánsdóttir sem er hér fyrir miðri mynd er …
Anna Björk Kristjánsdóttir sem er hér fyrir miðri mynd er tæp fyrir leik Íslands gegn Færeyjum á morgun vegna meiðsla. mbl.is/Golli

„Ástandið á leikmannahópnum er heilt yfir mjög gott. Við höfum æft vel í vikunni og það eru flestir leikmenn liðsins meiðslalausir og algerlega klárir í slaginn. Anna Björk [Kristjánsdóttir] og Sif [Atladóttir] eru hins vegar spurningarmerki fyrir leikinn á morgun,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is, en Ísland hefur leik í undankeppni HM 2019 þegar liðið mætir Færeyjum á Laugardalsvelli á morgun.

„Það er síðasta æfing fyrir leik á eftir og við munum taka stöðuna hvað Önnu Björk og Sif varðar á þeirri æfingu. Anna Björk er stíf aftan í læri og ég vil alltaf fara varlega með leikmenn mína þegar kemur að eymslum aftan í læri. Sif er búin að glíma við meiðsli á ökklum, en ég býst við og vona að hún verði klár í slaginn á morgun,“ sagði Freyr um meiðsli þessara tveggja varnarmanna. 

Leikur Íslands og Færeyja hefst klukkan 18.15 á morgun og verður í beinni textalýsingu á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka